Handbolti

Fékk hjartaáfall og lést á rauðu ljósi eftir sigur á erkifjendunum

Sindri Sverrisson skrifar
Zlatko Saracevic sneri sér að þjálfun árið 2003 og var meðal annars um tíma aðstoðarþjálfari króatíska landsliðsins.
Zlatko Saracevic sneri sér að þjálfun árið 2003 og var meðal annars um tíma aðstoðarþjálfari króatíska landsliðsins. EPA/ANTONIO BAT

Króatíska handboltahetjan Zlatko Saracevic lést í nótt, rétt eftir að hafa rætt við fjölmiðla að loknum sigri síns liðs.

Saracevic, sem á tíma sínum sem leikmaður vann til að mynda ólympíugull í Atlanta árið 1996, varð 59 ára gamall.

Eftir farsælan feril sem leikmaður gerðist Saracevic þjálfari. Hann hefur stýrt sigursælasta kvennaliði Króatíu, Podravka, síðustu ár.

Saracevic hafði nýlokið við að stýra Podravka til 32-29 sigurs á aðalkeppinautunum í Lokomotiva í gær þegar hann lést af völdum hjartaáfalls.

Zlatko Saracevic í landsleik með Króatíu.EPA/ATTILA KISBENEDEK

Saracevic var samkvæmt króatískum miðlum að aka markmannsþjálfaranum Barböru Stancin heim þegar hann fékk hjartaáfallið þar sem þau biðu við umferðarljós. Stancin hringdi strax á sjúkrabíl og læknar reyndu lífgunartilraunir í 40 mínútur en án árangurs.

Saracevic lék með landsliði Júgóslavíu á árum áður og varð heimsmeistari með liðinu árið 1986 í Sviss þar sem Ísland endaði í 6. sæti. Hann vann einnig brons með Júgóslavíu á Ólympíuleikunum í Seúl 1988.

Eftir að Króatía hlaut sjálfstæði vann Saracevic til þrennra verðlauna með liðinu á stórmótum á árunum 1994-1996. Fyrst vann Króatía brons á EM 1994, svo silfur á HM á Íslandi árið 1995, og loks gullið í Atlanta á Ólympíuleikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×