Skoðun

Setjum fé­lags­menn VR í 1. sæti

Helga Guðrún Jónasdóttir skrifar

Stytting vinnuvikunnar er spurning um kjarabætur sem fela í sér aukin lífsgæði launþegum til handa. Sveigjanlegra vinnufyrirkomulag, vinna að heiman og aukin réttindi til að sinna þörfum nánustu fjölskyldu falla einnig undir þessa mikilvægu baráttu um bætt kjör með auknum lífsgæðum.

Opinberir starfsmenn virðast, eina ferðina enn, vera skrefinu á undan almenna vinnumarkaðnum með umtalsverðri styttingu á vinnuvikunni hjá félagsmönnum BSRB. Vel gert og mikilvægur árangur sem ugglaust mun ryðja brautina fyrir annað launafólk í komandi kjarasamningagerð.

Samstaða verslunarmanna rofin

Það var því uppörvandi að heyra á Bylgjunni (Í bítið, dags. 16.02. sl.) að VR ætli sér loksins í þennan slag að ná fram samningsbundnum réttindum með auknum lífsgæðum. Í síðustu kjarasamningum reyndist áhugi núverandi formanns heldur lítill á þessu viðfangsefni eða kjarasamningagerðinni yfirleitt. Samningsmarkmið hans snerust fyrst og fremst um afnám 40 ára verðtryggðra lána og breytingar á lífeyrissjóðakerfinu, sem hann telur sem kunnugt er glíma við ósanngjarna ávöxtunarkröfu. Heimildir lífeyrissjóða fyrir „fagfjárfestingar“ í óhagnaðardrifinni starfsemi var því sett ofar kröfunni um bætt kjör allra VR félaga.

Þessi framganga formanns VR í síðustu kjarasamningagerð hefur sætt harðri gagnrýni innan verkalýðshreyfingarinnar. Einnig hefur legið fyrir að Landssamband verslunarmanna (LÍV) fylgdi VR ekki í þessum málum. Þvert á móti, ákvað forysta landssambandsins, eftir talsverða rekistefnu við formann VR um taktík og áherslur, að halda sínu striki og reyna að semja á þeim nótum sem upphaflega stóð til.

Orustan um lífeyrissjóðina

Þessi þrákelkni landssambandsins reyndist VR ákveðið gæfuspor þegar WOW Air féll og forsendur kjarasamningagerðar gerbreyttust í einu vetfangi. VR gat þá gert kröfugerð LÍV að sinni og loksins tekið sæti við hlið landssambandsins við samningaborðið. Mikill tími hafði þó farið til spillis í innbyrðis misklíð og var það talin helsta ástæða þess að verslunarmenn náðu ekki að öllu leyti þeim samningum sem vonir stóðu upphaflega til.

Fyrir mitt leyti hefði tíma formannsins verið mun betur varið með því að taka strax sæti við samningaborðið í upphafi og semja með LÍV um bætt kjör fyrir allra félagsmenn VR, þar á meðal aukin lífsgæði með styttri vinnuviku, sveigjanlegra starfsfyrirkomulagi og auknum rétti launafólks til að sinna þörfum nánustu fjölskyldu.

Í Ragnari Þóri Ingólfssyni býr augljós stjórnmálaforingi sem vill brjótast út. Stéttarfélagið VR er þó ekki rétti staðurinn til þess. Um það bera síðustu kjaraviðræður glöggt vitni.

Höfundur er stjórnmála- og fjölmiðlafræðingur og býður sig fram til formanns VR.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

TILMÆLI!

Sara E. Þórðardóttir Oskarsson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.