Skoðun

Ör­greinar frá ungum fram­bjóð­endum

Hópur ungra frambjóðenda Pírata skrifar

Ungt fólk hefur verið sérstaklega sýnilegt í samfélagsumræðunni á líðandi kjörtímabili. Hagsmunasamtök nemenda hafa rekið stöðuga baráttu fyrir málefnum eins og geðheilbrigði og hin stöðugu vandræði með Menntasjóð námsmanna. Landssamband ungmennafélaga hefur fest sig í sessi á alþjóðavettvangi sem öflugur talsmaður ungs fólks. Sýnilegast af öllu hafa börn og annað ungt fólk tekið leiðandi hlutverk í baráttunni gegn loftslagsvá með sögulegum mótmælum.

Það er því við hæfi að unga fólkið heldur áfram þessari lýðræðisþátttöku með því að skipa stóran hluta frambjóðenda í prófkjörum Pírata. Við ungu frambjóðendurnir tókum okkur saman og skrifuðum sameiginlega grein um málefni ungs fólks. Hver frambjóðandi skrifar um eitt málefni sem varðar ungt fólk og flestir frambjóðendur undir 35 náðu að skrifa kafla í greinina.

Huginn Þór Jóhannsson

Hvar getum við búið?

Dugnaður og drifkraftur unga fólksins í dag er magnaður. Það eru alltaf að bætast við fleiri og fleiri iðnaðarmenn, frumkvöðlar og hámenntað fólk í flokk okkar. Þetta er fólk sem oft er talað um að eigi bjarta framtíð framundan. Ég er því miður ekki sammála.

Þetta fólk er að synda gegn straumi, það lifir í kerfi sem þrýstir sér í lífstíðar skuldbindingar. Fortíðin sem var, þar sem fólk gat unnið fyrir sér og stundað nám til þess að leggja grunn að góðri framtíð er liðin. Leiguverð og húsnæðisverð eru orðin svo gríðarlega há að fólk kemst oft ekki hjá því að taka lán sem aldrei verður hægt að borga til þess að framfleyta sér. Afleiðing af því kerfi er að kynslóðin mín flytur ekki að heiman, nema þegar það flytur til útlanda.

Að sjálfsögðu eru þessir örfáu aðilar, þeir frumkvöðlar sem “meikuðu það” eða þeir ungu pólitíkusar sem ná gegn öllu saman að skaffa nægilega miklu til að borga leigu og sjá um sig. En meira að segja þetta fólk hefur varla efni á því að safna fyrir útborgunum. Með circa. 150 þúsund krónum í leiguverð ásamt öllu uppihaldi er nánast ómögulegt að ætlast til að aðilar geti á sama tíma lagt til hliðar fyrir íbúðarkaupum.

Samfélagið sem heild er farið að vakna við þennan raunveruleika, en við þurfum að grípa til aðgerða núna. Þau uppbyggingarverkefni sem farin eru af stað eru góð, en við þurfum meira. Ég vil stofna til samfélagsumræðu um framtíð unga fólksins út frá þessum málstað, hvar getum við búið. Mín von er að fleiri lausnir og hugmyndir komi fram svo að fulltrúar okkar geti loks gert við þetta gallaða kerfi.

Huginn Þór Jóhannsson, frambjóðandi í prófkjörum Pírata í Reykjavík

Haraldur Tristan Gunnarsson

Loftslagsbreytingar eru aðalmálið

Loftslagið hefur síðan 1850 hlýnað um 1,1 gráðu. Erfitt er að spá fyrir um framtíðina, en svo virðist að núverandi stefnur um losun leiði til tveggja gráðna hlýnunar fyrir 2055 og tæplega þriggja gráðna árið 2090. En ef loftslagið er nokkuð viðkvæmara en búist er við -- og það eru verulegar líkur fyrir því, 20% -- þá verður þriggja gráðna hlýnun fyrir 2055 og fjögurra gráðna árið 2090. Vöngum hefur verið velt um hvort 500 milljónir eða allt að milljarður manna gæti lifað af í fjögurra gráðna heimi. Mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2055 gerir ráð fyrir 10 milljörðum jarðarbúa.

Ég á von á að vera enn lifandi árið 2055 og hugsanlega 2090, og margir lesendur líka, eða börn þeirra. Til þess að við getum notið sæmilegs lífs í framtíðinni þurfum við að gera tvennt. Við þurfum að lágmarka losun að núlli, og fljótt, en einnig að búa okkur undir fyrir þær afleiðingar sem munu verða: Sú afleiðing sem hræðir mig mest er möguleikinn að matvælaframleiðsla um heiminn raskist verulega, sem myndi þýða hærra verð eða skortur á mat, jafnvel á Íslandi.

Þess vegna eiga Píratar sér stefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum, sem við í Sjálfbærnifélagi Pírata skrifuðu, að mínu frumkvæði. Hún kveður meðal annars á að auka fæðuöryggi og að ríkið eigi að birta plön, aðgengileg almenningi, um aðlögun að afleiðingum loftslagsbreytinga, slíkum sem innflutningsröskunum og sveiflum á matarverði, í þriggja og fjögurra gráðna heitari heimi. Stefnan er hér.

Haraldur Tristan Gunnarsson, frambjóðandi í prófkjöri Pírata Í Reykjavík

Einar Hrafn Árnason

Geðheilbrigði er lýðheilsa framtíðarinnar

Á undanförnum árum hefur tilfellum lyndis- og streituraskana aukist hjá ungu fólki á Íslandi, samhliða mikilli fækkun þeirra framhaldsskólanema sem segja andlega heilsu sína góða.

Það er auðveldast að eiga við ýmiskonar sálræna erfiðleika ef það er gripið inn snemma, en til þess þarf fólk bæði að þekkja einkennin þegar þau koma fram og að hafa greiðan aðgang að viðeigandi úrræðum. Að bera kennsl á geðkvilla er alls ekki auðvelt. WHO mældi töfina á milli þess að einkenni komu fyrst fram og einstaklingur leitaði sér hjálpar árið 2007 í 15 löndum og fann að miðgildistöfin í þessum löndum var á milli 3 og 30 ár. Þó það sé eðlilegt að fólk þekki ekki strax fyrstu einkenni geðkvilla er þetta langur tími og mikill munur á milli landa.

Mikil umræða hefur verið um málefnið og mögulegar lausnir. Sálfræðingar innan veggja skólanna geta rætt við einstaka nemendur, tengt þá við heilbrigðiskerfið og aukið þekkingu á geðheilsu meðal nemenda. Bóas Valdórsson í MH hefur unnið brautryðjendastarf á þessum vettvangi, en þrátt fyrir að málið margra ára baráttu hagsmunasamtaka og ítrekaðar þingsályktunartillögur virðist enn ekki bola á sálfræðingum í alla skóla, hvorki í framhaldsskólum né háskólum. Einnig ætti að mínu mati að kanna kennslu í andlegri heilsu í framhaldsskólum eða efstu bekkjum grunnskóla, þó ekki nema sem stutt námskeið að hætti kynfræðslu.

Þó þessar tillögur hjálpi einar og sér verður aðgengi ungs fólks að viðeigandi aðstoð ekki tryggt nema sálfræðikostnaður sé greiddur í gegnum Sjúkratryggingar Íslands. Þessi aðgerð er sennilega sú dýrasta sem er lögð til hér, en ekki má gleyma að það er mögulega ennþá dýrara í bæði efnahagslegum og mannlegum kostnaði að láta þessi vandamál óáreitt þar til þau geta haft verulega neikvæð áhrif á líf fólks. Forvarnir, fyrirbyggjandi vinna og snemmtæk íhlutun eru langhagsælasti kosturinn fyrir allt samfélagið.

Einar Hrafn Árnason, frambjóðandi í prófkjöri Pírata í Reykjavík

Haukur Viðar Alfreðsson

Hagnýtum atvinnuleysi ungmenna

Mikið atvinnuleysi hefur verið á Íslandi frá því að Covid-19 fór að hafa áhrif á atvinnustarfsemi í landinu. Sá hópur sem hefur komið verst út er ungt fólk, 16-24 ára, þar sem atvinnuleysi hefur verið um og yfir 20%. Lækkun varð þó á fjölda atvinnulausra ungmenna frá vori og fram á haust sem rímar ágætlega við að metfjöldi nemenda var skráður í Háskóla Íslands síðastliðið haust. Mannfjöldatölur frá Hagstofunni sýna að árgangsstærðir fólks á aldrinum 18-24 ára hafa lítið breyst samanborið við undanfarin ár. Því er líklegt að ungt fólk sem áður var að vinna sækist nú í nám, sem dylur atvinnuleysi.

Spurningin sem við eigum nú að spyrja okkur er hvort það sé fleira ungt atvinnulaust fólk sem hefði áhuga á að mennta sig en telur sig ekki hafa fjárhagslega burði til þess. Við vitum fyrir víst að það er fjöldi fólks atvinnulaus en við kjósum að nýta ekki tímann til þess að mennta þau og byggja hér upp mannauð og mögulega stærri skattgrunn til framtíðar. Heldur kjósum við fremur að láta fólk sitja heima hjá sér engum til hagsbóta, því þeir sem setjast á skólabekk skerða rétt sinn til atvinnuleysisbóta stórlega. Hægt væri að koma fólki til aðstoðar með ýmsu móti. Til dæmis mætti leyfa fólki að vera á atvinnuleysisbótum í námi, gefa öllum kost á að fá námslán sem eru jafnhá og atvinnuleysisbætur eða blöndu af þessu tvennu. Það eru til alskyns útfærslur sem skila þjóðfélaginu meira heldur en að borga stórum hluta samfélagsins fyrir að sitja heima. Hugsum í lausnum og sköpum okkur öllum bjartari framtíð og aukna hagsæld.

Haukur Viðar Alfreðsson, frambjóðandi í prófkjöri Pírata í Reykjavík

Pétur Óli Þorvaldsson

Eitthvað fyrir þig

Hvað vil ég verða þegar ég verð stór? Heilbrigður, ég vil vera heilbrigður og kannski ánægður líka. Ég vil starf sem færir mér ánægju og öryggi þannig að ég þarf líklega að mennta mig. Því miður var menntakerfið ekki fyrir mig. Annað hvort fannst mér ég vera að kafna undir efni sem ég skildi ekki eða fá verkefni sem voru endurtekningar á hlutum sem ég vissi nú þegar. Ég kláraði aðeins verkefni til þess að fá ekki lágar einkunnir. Hafið þið heyrt um LýðFlat?

Steinunn og Kéli voru í fyrsta og öðrum árgangi Lýðskólans á Flateyri. Þar fengu þau að nálgast námið á þeirra forsendum, það eru ekki gefnar einkunnir. Ef þau leggja ekki mikið í verkefnin þá er eina refsingin að þau fá ekki mikið úr þeim. Þannig að þau leggja mesta vinnu í þau verkefni sem skipta þau máli. Verkefnin og skólinn eru í raun aðeins hluti af því sem þau fengu, það er heildin og fólkið í kringum þau er stærsti parturinn af upplifuninni. Að búa með ókunnugu fólki, takast á við árekstra og samskiptavanda. Að setja þeim mörk og virða mörk annara. Í einu orði, að fullorðnast.

LýðFlat er ekki eini lýðskólinn, nú þegar er Lunga sem er minni og styttri en með meira krefjandi námskeið. Íþróttalýðskóli er í pípunum á Laugarvatni. Lýðskólar geta verið eins fjölbreyttir og þeir eru margir. Fyrir marga er núverandi menntakerfi að virka en alls ekki fyrir alla.

„Ég hef alltaf verið í skóla til þess að ná einhverju framtíðar markmiði. Þarna var ég í skóla til þess að læra að meta áhugamálin mín“ - Steinunn Ása Sigurðardóttir

Stundum gerir þú eitthvað fyrir framtíðina þína en stundum þarftu eitthvað fyrir þig.

Pétur Óli Þorvaldsson, frambjóðandi í prófkjöri Pírata í Norðvesturkjördæmi

Lenya Rún Taha Karim

Hvenær fáum við svör

Í kjölfar heimsfaraldursins hafa málefni stúdenta dottið niður um enn fleiri sæti í forgangsröðuninni hjá stjórnvöldum. Annaðhvort hefur ákall okkar til fjárhagsöryggis ekki heyrst eða þingmenn kjósa að hunsa okkur - en krafa okkar er skýr og sanngjörn.

Menntasjóður námsmanna

Vandinn með lánasjóðskerfið á Íslandi er sá að kerfið grípur því miður ekki alla, samkvæmt tölum úr sjöundu umferð EUROSTUDENT VII vinna 72% stúdenta með námi og gera má ráð fyrir því að eitthvað hlutfall af þessum stúdentum séu einnig á námslánum. Frítekjumarkið var vissulega hækkað upp í 1.364.000 kr. en þó er það ekki nóg til þess að hinn almenni stúdent vinni fullt starf yfir sumarið og nái einnig að framfleyta sér yfir skólaárið þar sem grunnframfærsla framfærslulána er í besta falli 189.500 kr. sem er einfaldlega ekki nóg. Til að setja þetta í samhengi vinna u.þ.b. 72% stúdenta til þess að geta haft efni á því að stunda nám, en samt sem áður vinnur stórt hlutfall okkar samhliða því að taka námslán.

Hvað er hægt að gera?

Svar við ákalli stúdenta felst í því að hlusta á kröfur stúdenta. Fram að árinu 2010 áttu stúdentar rétt á atvinnuleysisbótum í námshléum, ef litið er til aðstæðna í þjóðfélaginu tel ég nauðsynlegt að veita þann rétt aftur þar sem mikið fjárhagsóöryggi ríkir nú meðal stúdenta og þá sérstaklega þar sem sumarið er að nálgast og eru sumir engu nærri því hvað skal gera.

Til að byrja með er grunnframfærsla framfærslulána einfaldlega ekki nóg og dugar það stúdentum ekki til að stunda námið sitt áhyggjulaust, hrakandi frammistaða okkar í náminu í kjölfar heimsfaraldursins er nægilegur rökstuðningur til að fullyrða þessa staðhæfingu. Einnig skerðir frítekjumarkið möguleika á vinnu með námi.

Í fyrsta heims ríki, eins og á Íslandi, þar sem lánasjóðskerfi er til staðar til að grípa námsmenn, er fráleitt að nýta það ekki til fulls.

Lenya Rún Taha Karim, frambjóðandi í prófkjöri Pírata í Reykjavík

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir

Okkar kynslóð vill nýja stjórnarskrá

Þessar kosningar munu snúast um margt, en grundvallarstefna okkar lýðræðis er eitt af þeim málum. Á þessu kjörtímabili hefur ríkisstjórnin formlega ákveðið að hunsa þjóðaratkvæðagreiðsluna þar sem 2/3 þjóðarinnar samþykkti nýja stjórnarskrá byggða á tillögum stjórnlagaþings. Þau hafa ákveðið að semja sínar eigin stjórnarskrárbætur sem brjóta á þeirri grundvallarreglu að þjóðin sé stjórnarskrárgjafinn. Tillögur ríkisstjórnarinnar eru einnig útvatnaðar þar sem réttur náttúrunnar er fjarlægður, upplýsingarréttur almennings fjarlægður, og auðlindarákvæðinu gjörbreytt þannig að núverandi kvótakerfi þrífst þar óbreytt. Ég er ein af þeim 43.000 sem skrifuðu undir kröfu um nýja stjórnarskrá.

Mín kynslóð er sú fyrsta sem hefur þurft að læra um málið ekki frá eigin minni, og eiga margir skiljanlega erfitt með að trúa því að hér hafi í alvörunni þjóðaratkvæðagreiðsla verið vanvirt . En mín kynslóð er líka að átta sig ört á tengingum náttúruvandans við lýðræði og gegnsæi. Vopnuð af sannfæringu og hugrekki getum við fengið ríkisstjórn sem vill samþykkja nýju stjórnarskrána. Rökrétt áframhald stjórnarskrármálsins er að Alþingi vinni með tillögur stjórnlagaráðs og útbúi frumvarp, sem er nú tilbúið og var lagt fram á þingi í haust af Pírötum og stjórnarandstöðunni. Eins og ég hef margoft kallað á mótmælum: Við þurfum nýja stjórnarskrá, og hana skulum við nú fá.

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, frambjóðandi í prófkjöri Pírata í Reykjavík

Prófkjörið hefst 3. mars á kosningakerfi Pírata.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×