Handbolti

„Eins mikill ruðningur og þeir verða“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór Viðarsson fellur í baráttu við Patrek Stefánsson. Andartaki síðar lá boltinn í netinu.
Arnór Viðarsson fellur í baráttu við Patrek Stefánsson. Andartaki síðar lá boltinn í netinu. stöð 2 sport

Sérfræðingar Seinni bylgjunnar voru sammála um að sigurmark KA gegn ÍBV í Olís-deild karla í gær hafi verið ólöglegt.

Patrekur Stefánsson tryggði KA-mönnum sigurinn undir blálokin í gær, 28-29. Eyjamenn voru langt frá því að vera sáttir og vildu fá ruðning á Patrek. Þeir Bóas Börkur Bóasson og Hörður Aðalsteinsson dæmdu hins vegar markið gott og gilt og KA-menn fóru frá Eyjum með stigin tvö.

Sigurmark Patreks var að sjálfsögðu til umræðu í Seinni bylgjunni í gær og þeir Theodór Ingi Pálmason og Ásgeir Örn Hallgrímsson voru sammála um að það hefði ekki átt að standa.

„Þetta er pjúra ruðningur,“ sagði Theodór. „Er þetta ekki olnboginn frekar en öxlin sem fer á fullu í Arnór [Viðarsson]. Þetta er eins mikill ruðningur og þeir verða.“

Klippa: Seinni bylgjan - Sigurmark KA í Eyjum

Ásgeir Örn gat ekki annað en verið sammála sveitunga sínum úr Hafnarfirðinum. 

„Þetta er klár ruðningur. Þetta eru bara mistök sem dómarinn gerir. Það er ekkert flóknara en það. Þetta er bara frábær varnarleikur. Hann fær hann bara á sig og er ekki að ýkja neitt. Hann keyrir bara á hann og hann datt,“ sagði Ásgeir Örn.

Með sigrinum í gær komst KA upp fyrir ÍBV í Olís-deildinni. Liðin eru jöfn að stigum í 6. og 7. sæti deildarinnar.


Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.


Tengdar fréttir

Dramatískur sigur KA í Eyjum

KA gerði sér lítið fyrir og sótti tvö stig til Eyja er þeir unnu 29-28 sigur á heimamönnum í Olís-deild karla í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×