Handbolti

Sjö ís­lensk mörk í sigri Kristian­stad | Viktor Gísli og fé­lagar með öruggan sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Teitur Örn Einarsson átti góðan leik í kvöld.
Teitur Örn Einarsson átti góðan leik í kvöld. vísir/getty

Íslendingalið Kristianstad vann góðan sex marka sigur á Aranas, 28-22, í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. GOG vann öruggan útisigur á Kolding, 36-27, og Skjern tapaði gegn Lemvig á útivelli, 35-31.

Kristianstad vann góðan sex marka sigur á heimavelli gegn Aranas. Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik leiddu heimamenn með tveimur mörkum en þeir bættu um betur í þeim síðari og unnu leikinn á endanum með sex marka mun, lokatölur 28-22. Sigurinn lyftir Kristianstad upp í 7. sæti deildarinnar með 24 stig að loknum 22 leikjum.

Teitur Örn Einarsson skoraði fjögur mörk og Ólafur Andrés Guðmundsson þrjú. Teitur Örn lagði reyndar upp sex mörk til viðbótar á meðan Ólafur Andrés gerði sér lítið fyrir og lagði upp 11 mörk. Ótrúlegar tölur.

Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson stóð allan tímann í marki GOG sem vann þægilegan níu marka útisigur á Kolding.  Í marki Kolding stóð svo Ágúst Elí Björgvinsson, annar af þremur markvörðum íslenska landsliðsins á HM í Egyptalandi.

Munurinn var sjö mörk í hálfleik og áttu heimamenn í rauninni aldrei roð í öflugt lið GOG, lokatölur 36-27 Viktori Gísla og félögum í vil. Viktor Gísli varði alls tólf skot í leiknum eða 30 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Varði hann tvö af þremur vítaskotum Kolding-manna. Ágúst Elí varði 14 skot og var einnig með rúmlega 30 prósent markvörslu. 

Þá skoraði Elvar Örn Jónsson þrjú mörk í fjögurra marka tapi Skjern gegn Lemvig.

GOG trónir sem fyrr á toppi deildarinnar, nú með 34 stig. Skjern er í 7. sæti með 21 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×