Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Stjarnan 26-23 | Heimamenn með sigur í hörkuleik

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Guðmundur Árni Ólafsson átti góðan leik er Afturelding lagði Stjörnuna í kvöld.
Guðmundur Árni Ólafsson átti góðan leik er Afturelding lagði Stjörnuna í kvöld. Vísir/Daniel Thor

Afturelding fagnaði þriggja marka sigri á Stjörnunni í Varmá í kvöld, 26-23, eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik.

Leikurinn byrjaði rólega þar sem liðin áttu erfitt með að koma fyrsta boltanum í netið, Leó Snær Pétursson skoraði fyrsta mark Stjörnunnar úr vítakasti eftir rúmar fimm mínútur og það tók heimamenn rúmar 8 mínútur að skora sitt fyrsta mark en eftir það fór leikurinn að rúlla.

Heimamenn höfðu forystuna framan af fyrri hálfeik en gestirnir úr Garðabæ náðu undirtökunum áður en flautað var til hálfleiks og munurinn þá tvö mörk, 11-13, Stjörnunni í vil.

Stjörnumenn höfðu áfram góð tök á leiknum í upphafi síðari hálfleiks og allt þar til á 50 mínútu þegar heimamenn jafna leikinn í stöðunni 20-20. Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði þá eitt af sínum 5 mörkum fyrir Aftureldingu en skömmu síðar fékk hann beint rautt spjald fyrir að slá í andlitið á Pétri Árna Haukssyni.

Heimamenn nýttu sér mótlætið sem fylgdi því að missa sinn besta mann af velli og unnu lokakaflann 6-3, lokatölur í Varmá 26-23 fyrir Aftureldingu.

Af hverju vann Afturelding?

Leikurinn var kaflaskiptur en heilt yfir var þetta járn í járn þar sem liðin skiptust á að halda smá forskoti. Það voru svo heimamenn sem höfðu betur á lokakaflanum og fögnuðu því sigri í dag. Stærsti munurinn á liðunum var þó Arnór Freyr Stefánsson sem varði vel í 60 mínútur í marki heimamanna.

Hverjir stóðu upp úr?

Arnór Freyr var einn besti maður vallarins, endaði með 18 varða bolta og þar af ógrinni af dauðafærum sem hann varði og dró þar sjálfstraustið úr Stjörnumönnum. Það voru svo tveir 18 ára peyja í liði heimamanna sem sáu um sóknarleikinn, Þorsteinn Leó Gunnarsson og Guðmundur Bragi Ástþórsson. Guðmundur Bragi endaði með 8 mörk, frábær leikur hjá honum.

Leó Snær Pétursson var atkvæðamestur Stjörnumanna með 6 mörk og Björgvin Þór Hólmgeirsson næstur með 5 mörk.

Hvað gekk illa?

Stjarnan fékk litla markvörslu, sérstaklega þegar líða tók á leikinn. Þeir fóru illa með dauðafærin og gerðu alltof mikið af sóknarmistökum. Ólafur Bjarki og Tandri Már voru saman með 1 mark og sóknarleikurinn heilt yfir hikstandi hjá gestunum.

Hvað er framundan?

Leikur kvöldsins var einn af frestuðum leikjum 5. umferðar. Það er svo á sunnudaginn sem 9. umferðin fer af stað. Afturelding mætir þá stigalausu liði ÍR, Stjarnan heimsækir síðan Val í Origo höllina á mánudaginn.

Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar.VÍSIR/DANÍEL

Gunni Magg: tveir 18 ára og tveir 20 ára sem kláruðu þetta í dag

„Þetta er stórkostlegt“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar eftir sigurinn í kvöld.

„Ég er ótrúlega ánægður með strákana og karakterinn sem þeir sýndu í kvöld. Við misstum Þorstein Gauta (Hjálmarsson) út í fyrri hálfeik vegna meiðsla og svo fékk Þorsteinn Leó rautt spjald en klárum þetta samt“ sagði Gunnar, ánægður með að strákarnir hafi ekki brotnað við mótlæti leiksins

„Við fengum líka frábæra markvörslu í dag og það munar um það. Ef við skoðum útilínuna hjá okkur í leiknum þá erum við með tvo 18 ára stráka og tvo tvítuga sem eru að spila þetta, ég er bara ótrúlega stoltur af þeim. Auðvitað gera þeir sín mistök en þegar að mest á reyndi þá stigu þeir upp og kláruðu leikinn“

Gunnar hrósaði sínum leikmönnum eftir leik og minntist á aldur útileikmanna sinna í dag en þeir Þorsteinn Leó og Guðmundur Bragi, markahæstu menn liðsins, eru aðeins 18 ára gamlir. Blær Hinriksson og Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha eru 20 ára.

Afturelding mætir ÍR í næsta leik, Gunnar segist hræðast þann leik

„Þetta er svona leikur sem ég sem þjálfari er hvað mest stressaður fyrir“ sagði Gunnar að lokum en ÍR er enn á botni deildarinnar án stiga og aðeins tímaspursmál hvenær fyrstu stigin detta í hús.

Patrekur: Þetta datt með Aftureldingu á lokakaflanum

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, segir Arnór Frey Stefánsson, markvörð Aftureldingar, hafa verið muninn á liðunum í dag.

„Það var ekki mikið skorað í upphafi leiks, markverðirnir voru frábærir þá. Enn um leið og við fórum að nýta okkur seinni bylgjuna þá unnu við okkur inn þetta forskot í hálfleik“ sagði Patti um gang leiksins í dag

„Síðan veit ég ekki hvað við förum með mikið af dauðafærum, munurinn á liðunum var bara Arnór í markinu, hann er frábær markmaður en ég veit ekki hvað við fórum með mörg skot í hann“ sagði Patti ósáttur við sína menn að hafa ekki nýtt sín dauðafæri

„Þetta var ekki alveg að falla með okkur, í restina stigum við á línu og trekk í trekk fengum við fín færi. Þetta hefði alveg geta dottið með okkur en datt í restina fyrir Aftureldingu, vissulega svekkjandi“ sagði Patrekur að lokum

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira