Körfubolti

NBA dagsins: Mikill bolti í LaMelo Ball og LeBron í yfirvinnu á gamalsaldri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LaMelo Ball með boltann í leiknum á móti Houston Rockets í nótt.
LaMelo Ball með boltann í leiknum á móti Houston Rockets í nótt. AP/Nell Redmond

LaMelo Ball átti góðan leik í NBA-deildinni í nótt en nýliðinn er kominn í hóp með þeim LeBron James og Luka Doncic.

LaMelo Ball var með 24 stig, 10 stoðsendingar og 7 fráköst í 119-94 sigri Charlotte Hornets á Houston Rockets í nótt.

Sérfræðingar hafa verið að reyna að breyta skotinu hans LaMelo Ball sem þykir skrýtið. Ball vill engu breyta.„Ég ætla að skjóta svona áfram því þetta er mitt skot. Ég hef mikla trú á því og mér líður vel þegar ég sleppi boltanum. Þeir voru eitthvað að reyna að laga það til þegar ég kom hingað en ég sagði þeim bara: Svona er mitt skot,“ sagði LaMelo Ball.

Ball setti niður sjö af tólf þriggja stiga skotum sínum í leiknum en hann hefur nú sett niður 21 af 40 þriggja stiga skotum sínum í síðustu sex leikjum.

Hann er aðeins þriðji leikmaðurinn í sögu NBA sem nær fleiri en einum leik með að minnsta kosti 20 stigum, 10 fráköstum og 5 stoðsendingum fyrir tvítugsafmælið sitt. Hinir eru LeBron James og Luka Doncic.

LeBron James og Luka Doncic voru líka á ferðinni í nótt og fögnuðu báðir sigri.

LeBron James var með flotta þrennu í 119-112 sigri Los Angeles Lakers á Oklahoma City Thunder. James endaði leikinn með 28 stig, 14 fráköst og 12 stoðsendingar en spilaði líka í 43 mínútur í leiknum sem er mikið fyrir mann á hans aldri.

Luka Doncic var með 26 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar í 127-122 sigri Dallas Mavericks á Minnesota Timberwolves en stjarna Dallas liðsins var þó Kristaps Porzingis með 27 stig, 13 fráköst og 6 varin skot.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir úr þessum leikjum sem og flottustu tilþrif næturinnar.

Klippa: NBA dagsins (frá 8. febrúar 2021)

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×