Tónlist

KALEO frumsýnir myndband sem var heldur betur krefjandi í tökum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Erfitt var að skjóta myndbandið á Þrídröngum.
Erfitt var að skjóta myndbandið á Þrídröngum.

Snemma á árinu 2020 sendi hljómsveitin KALEO frá sér fyrstu lögin af komandi plötu en það voru lögin I Want More og Break My Baby.

Eftir að Covid-19 faraldurinn braust út var útgáfu þriðju breiðskífu sveitarinnar frestað og tilkynnir sveitin í dag að platan sem ber heitið Surface Sounds mun koma út þann 23. apríl næstkomandi.

Í dag kemur einnig út einstakt myndband af lifandi flutning KALEO af laginu Break My Baby sem tekið var upp síðasta sumar á Þrídröngum. Lag og texti eru eftir Jökul Júlíusson. KALEO hefur í gegnum tíðina geftð sér gott orð fyrir að ráðast í metnaðarfull myndbönd sem fanga lifandi flutning sveitarinnar á óvenjulegum og krefjandi stöðum í íslenskri náttúru.

Þetta er án nokkurs vafa mest krefjandi myndbandsverkefni KALEO til þessa og er útkoman glæsileg. Fullkomið samspil kraftmikillar tónlistar og náttúru. En spurður útí staðsetninguna svarar Jökull Júlíusson forsprakki KALEO eftirfarandi.

„Það eru í fyrsta lagi forréttindi að fá að spila á þessum stað þar sem að sárafáir hafa fengið að heimsækja. Manni verður hugsað til þeirra Vestmannaeyinga sem að fyrstir klifu drangann án nokkurs öryggisbúnaðar og hverskonar ofurmenni þeir hafa verið. Okkur var búið að langa að gera þetta lengi og loksins fannst tími í Covid,“ segir Jökull.

„Það þurfa að vera fullkomnar veðuraðstæður til að svona verkefni gangi upp og við erum mjög ánægðir með útkomuna og þökkum þeim frábæra hóp sem að vann þetta með okkur. Það þótti líka vel við hæfi að taka upp myndband á jafn afskekktum stað í miðjum heimsfaraldri,” bætir Jökull við.

Vitinn var byggður árið 1939 og verður bygging hans að teljast eitt helsta þrekvirki íslenskrar byggingarsögu. Lokið var að koma fyrir ljósabúnaði í vitann þann 5. júlí 1942 og á sama degi 78 árum síðar tók KALEO upp þetta myndband.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.