Handbolti

Lokaskotið: „Ekki veikan blett að finna á þessu Selfoss-liði“

Sindri Sverrisson skrifar
Bjarni Fritzson og Einar Andri Einarsson fóru yfir málin í Seinni bylgjunni í gærkvöld.
Bjarni Fritzson og Einar Andri Einarsson fóru yfir málin í Seinni bylgjunni í gærkvöld.

Sérfræðingarnir í Seinni bylgjunni tóku fyrir þrjú umræðuefni í Lokaskotinu í gærkvöld. Þar veltu þeir fyrir sér fallbaráttunni, hvort Selfyssingar væru meistaraefni og hvort að dómararnir höndluðu leikjaálagið.

Grótta hefur þegar náð fimm stigum í Olís-deild karla í handbolta og virðist á góðu róli á meðan að Þór Akureyri er með tvö stig og ÍR ekkert. Henry Birgir Gunnarsson spurði þá Einar Andra Einarsson og Bjarna Fritzson hvort ÍR og Þór hefðu burði til að gera fallbaráttuna spennandi:

„Grótta er skrefi fyrir framan bæði þessi lið núna,“ sagði Bjarni, og bætti við: „Lið eins og Fram, sem maður hélt að gæti dottið ofan í þetta, virkar traust. Mér leist ágætlega á bæði Þór og ÍR, og við ættum alls ekki að afskrifa neina, en ef ég tala um ÍR þá finnst mér þeir þurfa að sækja meira til að vinna. Mér finnst þeir stundum stressaðir. Þeir hafa engu að tapa. Af hverju „gönna“ þeir ekki á þetta?“

„Það er ekkert sem bendir til annars en að þessi tvö lið falli. Eins og staðan er núna mun Grótta halda áfram að taka stig, og Þórsararnir eru bara með menn í meiðslum og veseni,“ sagði Einar Andri.

Hvaða byrjunarlið er betra?

Selfoss er nú komið með Ragnar Jóhannsson heim úr atvinnumennsku í stöðu hægri skyttu. Getur liðið orðið Íslandsmeistari?

„Engin spurning, ásamt nokkrum öðrum liðum. Auðvitað fór Haukur eftir síðasta tímabil og Árni Steinn hætti, en þeir eru búnir að taka frábæran markvörð inn, Guðmund Hólmar, Svein Aron og nú Ragga, inn í mjög sterkan og flottan hóp. Það er ekki veikan blett að finna á þessu Selfoss-liði. Þeir hafa hundrað prósent gæðin [til að landa titlinum] en það eru fleiri lið sem ætla sér titilinn,“ sagði Einar Andri, og spurði: „Hvaða byrjunarlið er betra en Selfoss?“

Bjarni tók undir að Selfyssingar litu vel út: „Þeir eru með frábært lið og líta vel út. Þeir eru líka í góðu standi. Það er góður bragur á þeim.“

Dómarar deildarinnar voru einnig til umræðu en hægt að er horfa á Lokaskotið úr Seinni bylgjunni hér að neðan.

Klippa: Seinni bylgjan - Lokaskotið

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×