Handbolti

Þýskur landsliðsmaður veitir Gísla Þorgeiri enn meiri samkeppni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Philipp Weber í leik Þýskalands og Brasilíu á HM í Egyptalandi.
Philipp Weber í leik Þýskalands og Brasilíu á HM í Egyptalandi. epa/Petr David Josek

Þýski landsliðsmaðurinn í handbolta, Philipp Weber, gengur í raðir Magdeburg frá Leipzig fyrir næsta tímabil.

Weber er leikstjórnandi en Magdeburg er afar vel sett í þeirri stöðu með Slóvenann Marko Bezjak, norska landsliðsmanninn Christian O'Sullivan og Gísla Þorgeir Kristjánsson.

Weber þekkir vel til hjá Magdeburg en hann er uppalinn hjá félaginu. Hann gekk í raðir Leipzig 2013 og hefur leikið þar síðan þá ef frá er talið er eitt tímabil sem hann var í herbúðum Wetzlar.

Hinn 28 ára Weber hefur leikið með þýska landsliðinu frá 2017 og farið með því á þrjú stórmót, meðal annars HM í Egyptalandi sem lauk um helgina. Þar enduðu Þjóðverjar í 12. sæti, á sínu fyrsta stórmóti undir stjórn Alfreðs Gíslasonar.

Gísli Þorgeir gekk í raðir Magdeburg síðasta sumar líkt og Ómar Ingi Magnússon. Sá síðarnefndi er í hópi markahæstu manna þýsku úrvalsdeildarinnar.

Auk Webers fær Magdeburg hollensku skyttuna Kay Smits, danska markvörðinn Mike Jensen og línumanninn Magnus Saugstrup sem sló í gegn með Dönum á HM í Egyptalandi fyrir næsta tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×