Umfjöllun: Ísland - Noregur 33-35 | Fyrirmyndar frammistaða gegn ógnarsterkum Norðmönnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku leikmennirnir í þjóðsöngnum fyrir leikinn gegn Noregi.
Íslensku leikmennirnir í þjóðsöngnum fyrir leikinn gegn Noregi. epa/Anne-Christine Poujoulat

Ísland tapaði fyrir Noregi, 33-35, í síðasta leik sínum á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í dag. Ísland endaði í 5. sæti milliriðils III en ekki er enn ljóst í hvaða sæti liðið endar á mótinu.

Staðan í hálfleik var jöfn, 18-18, en í seinni hálfleik voru Norðmenn sterkari aðilinn og unnu á endanum tveggja marka sigur, 33-35. 

Íslenska sóknin gekk frábærlega en því miður gekk hún enn betur hjá Noregi sem skoraði á tíma nánast í hverri einustu sókn.

Leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Norðmenn en þeir þurftu að vinna til að eiga möguleika á að komast í átta liða úrslit. Enn er ekki útséð með það en Noregur þarf að treysta á hagstæð úrslit úr leik Portúgals og Frakklands í kvöld.

Mikið skorað

Fyrri hálfleikurinn var með fjörugasta móti, alls voru 36 mörk skoruð og strangir norður-makedónskir dómarar gáfu átta brottvísanir. Staðan í hálfleik var jöfn, 18-18.

Eins og tölurnar gefa til kynna var fátt og varnir og markvörslu í fyrri hálfleik. Sóknarleikur beggja liða var hins vegar góðu lagi og rúmlega það. Íslenska liðið spilaði sig í færi allan fyrri hálfleik og skotnýtingin lagaðist eftir því sem á hann leið.

Íslendingar byrjuðu leikinn af miklum krafti, skoruðu fyrstu tvö mörkin og komust svo í 4-2. Þá seig aðeins á ógæfuhliðina, Íslendingar fóru að týnast út af og frábærlega útfærð hraðaupphlaup og seinni bylgja Norðmanna skiluðu fullt af mörkum.

Norður-Makedónsku dómararnir voru í stóru hlutverki framan af leik og á fyrstu sextán mínútum leiksins fengu Íslendingar fjórar brottvísanir. Þegar uppi var staðið voru þær átta talsins.

Norðmenn náðu nokkrum sinnum þriggja marka forskoti en Íslendingar gáfust aldrei upp og voru alltaf inni í leiknum.

Kærkomið línuspil

Í stöðunni 13-16, Noregi í vil, þegar fjórar mínútur voru eftir tók Guðmundur Guðmundsson leikhlé sem svínvirkaði. Ísland vann síðustu fjórar mínútur fyrri hálfleiks, 5-2, og staðan í hálfleik því jöfn, 18-18.

Arnar Freyr Arnarsson skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks eftir sendingu frá Ómari Inga Magnússyni sem lék sinn langbesta leik á HM í dag, skoraði fjögur mörk og dældi út stoðsendingum. Alls skoruðu íslensku línumennirnir, Arnar Freyr, Elliði Snær Viðarsson og Ýmir Örn Gíslason, átta mörk í leiknum og það var jákvætt að sjá vel útfært línuspil Íslendinga í leiknum.

Viktor Gísli Hallgrímsson, sem byrjaði í markinu, varði sjö skot í fyrri hálfleik (33 prósent) en Björgvini Páli Gústavssyni tókst ekki að verja skot. Thorbjörn Bergerud byrjaði vel í norska markinu en síðan dró af honum. Kristian Sæverås kom inn á undir lok fyrri hálfleiks og lék svo allan seinni hálfleikinn. Hann reyndist íslenska liðinu erfiður og varði átta skot (39 prósent).

Erfiðar skyttur

Norðmenn hertu tökin strax í upphafi seinni hálfleiks, skoruðu fjögur af fyrstu fimm mörkum og náðu þriggja marka forskoti, 19-22.

Íslenska vörnin réð lítið við norsku skytturnar sem röðuðu inn mörkum. Markverðir íslenska liðsins voru ekki öfundsverðir af hlutskipti sínu í þessum leik. Guðmundur notaði alla þrjá markverðina, Viktor Gísla, Björgvin Pál og Ágúst Elí Björgvinsson, og vörðu þeir samtals fimmtán skot. Sá síðastnefndi átti góða innkomu undir lokin og kom íslenska liðinu aftur inn í leikinn.

Noregur náði mest fimm marka forskoti, 26-31, en Ísland svaraði með góðum kafla, fjórum mörkum í röð og minnkaði muninn í eitt mark, 30-31, þegar Ólafur Guðmundsson skoraði eftir að Gísli Þorgeir Kristjánsson hafði tætt norsku vörnina í sig, einu sinni sem oftar. Gísli Þorgeir átti frábæran leik, skoraði fjögur mörk og lék norsku varnarmennina oft grátt.

Tækifæri til að jafna

Kevin Gulliksen jók muninn í tvö mörk, 30-32, en Arnar Freyr minnkaði muninn að bragði í eitt mark, 31-32. Ágúst Elí varði svo frá Gulliksen og Ísland fékk tækifæri til að jafna. Bjarki Már fór inn úr erfiðu færi úr vinstra horninu og Sæverås varði. Harald Reinkind skoraði svo í næstu sókn og kom Noregi tveimur mörkum yfir, 31-33. Sander Sagosen gulltryggði síðan norskan sigur með marki úr vítakasti, 31-34.

Á endanum munaði tveimur mörkum á liðunum, 33-35. Frammistaða íslenska liðsins var heilt yfir virkilega góð og var ekki langt frá því að skila stigi gegn ógnarsterku norsku liði.

Ísland lék vel í síðustu tveimur leikjum sínum á HM og sýndi að það býr miklu meira í liðinu en það sýndi gegn Portúgal og sérstaklega Sviss.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira