Kristófer kærði KR vegna vanefnda á samningi sem hann segir hafa haft sitt að segja um að hann yfirgaf félagið síðasta sumar og gekk í raðir Vals.
Kristófer greindi frá því í viðtali við Vísi í september að hann hefði leitað aðstoðar lögfræðings þar sem hann ætti inni háa upphæð hjá körfuknattleiksdeild KR. Sagði hann KR varla hafa greitt sér laun á réttum tíma í eitt og hálft ár. Samkvæmt upplýsingum Vísis telur Kristófer KR skulda sér milljónir króna.
Kristófer sagðist við Vísi hafa freistað þess að ná samkomulagi við KR en nú er deilan komin alla leið fyrir dómstóla.
Páll Kolbeinsson, gjaldkeri körfuknattleiksdeildar KR, sagði við Vísi í september að Kristófer hefði leynt meiðslum þegar hann skrifaði undir nýjan samning við félagið sumarið 2019. Þessu hafnaði Kristófer og benti á skilaboð og myndir sem hann hefði sent þáverandi þjálfara KR sem og sjúkraþjálfara, áður en hann skrifaði undir samninginn.
Páll sagði jafnframt í september að KR hygðist fara í skaðabótamál við Kristófer vegna riftunar hans á samningi síðasta sumar.
Kristófer lék í fyrsta skipti á móti KR á mánudagskvöld en mátti sætta sig við 80-71 tap með liði Vals. Hann skoraði 17 stig og tók 13 fráköst í leiknum.