Lífið

Bríet tónlistarmaður ársins hjá RVK Grapevine

Stefán Árni Pálsson skrifar
JFDR og Bríet fengu verðlaun.
JFDR og Bríet fengu verðlaun. @Art Bicnick

Tónlistarkonan Bríet er tónlistarmaður ársins hjá menningartímaritinu Reykjavík Grapevine en þetta kemur fram í tilkynningu frá Grapvine.

Aðrir sem komu til greina voru rokkhljómsveitin Skoffín og Víkingur Heiðar Ólafsson. Það var svo JFDR sem fékk verðlaun fyrir bestu plötu ársins, New Dreams en tónlistarkonan Jófríður Ákadóttir hefur fyrir löngu fest sig í sessi í íslensku tónlistarlífi sem einn af fremstu tónlistarmönnum landsins.

Frosti Jón Runólfsson fékk verðlaun fyrir besta myndband ársins við lag Jónsa, Sumarið Sem Aldrei Kom. Myndbandið vakti gríðarlega athygli í íslensku þjóðfélagi þar sem Frosti dregur upp ljóðræna mynd af íslenskum hversdagsleika hjá ólíkum þjóðfélagshópum.

Þá fékk hljómsveitin Holdgervlar viðurkenningu í flokknum, listafólk sem þið ættuð að fylgjast með (Artist to watch). Hin óhefðbundna þeramín-tólistarkona, Hekla, fékk verðlaun í flokknum „Þú ættir að hafa heyrt af þessu“ (You should have heard this) en hún deilir verðlaununum með hljómsveitinni RYBA sem hefur vakið mikla athygli án þess að ná inni í meginstraum tónlistarlífs Íslendinga.

Holdgervlar fengu verðlaun í flokknum listafólk sem þið ættuð að fylgjast með.@Art Bicnick

Að lokum fengu myndbandsgerðarfólkið Rough Cult og poppstjarnan Auður sérstök hvatningarverðlaun í flokknum Shout out. Rough Cult hefur verið iðið við að framleiða tónlistarmyndbönd. Má þar helst nefna myndbandið Píla með joey Christ en þau hafa einnig unnið með Vök, meðal annars við lagið Erase You.

Auður fékk hvatningarverðlaun fyrir að vera sérlega iðinn við að vinna með ólíku og óþekktu listafólki í faraldrinum, og þannig auðgað tónlistarlíf Íslendinga á tímum heimsfaraldurs þannig um munar. Þá opnaði hann hljóðver ásamt tónlistarmanninum Krassasig til þess að styðja við nýja tónlistarmenn.

Þá var dómnefnd nokkur vandi á höndum vegna þess að fáir tónleikar áttu sér stað þetta árið. Var því brugðið á það ráð að líta til streymis á netinu, þar sem tónlistarfólk kom fram. Að mati dómnefndar stóðu Airvawes upp úr, sem voru sýndir á RÚV auk Post-Session sem Post-dreifing stóð fyrir þar sem grasrótin var allsráðandi.

Í dómnefnd Reykjavík Grapevine þetta árið voru þau Hannah Jane Cohen, menningarritstjóri Reykjavík Grapevine, og var hún formaður. Aðrir voru Alexander Jean Edvard Le Sage De Fontenay, blaðamaður, plötusnúður og nemi, Geoffrey Þór Huntingdon - Williams, rekstrarstjóri Priksins og sticky plötuútgáfunnar, Sigtryggur Baldursson, tónlistarmaður og framkvæmdastjóri Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, og að lokum, Maria-Carmela Raso, tónlistarkona og sýningastjóri.

„Það var ákveðin áskorun að samræma störf dómnefndar við stöðu mála í heimsfaraldrinum, en okkur tókst það með mikilli vinnu og góðu skipulagi,“ segir Hannah Jane en Reykjavík Grapevine mun ekki halda sérstaka verðlaunaafhendingu í ár líkt og fyrri ár þegar blaðið hefur fagnað tónlistarverðlaununum.

Hannah segir að það sem standi upp úr fyrir síðasta ár, sem var mjög ólíkt öllum öðrum árum þegar kom að tónlistarflutningi, var hversu góð tónlistin var, auk þess sem íslenskt tónlistarfólk vakti gríðarlega athygli erlends.

„Gæði íslenskra tónlistar á síðsta ári voru mjög góð, og í raun ótrúlegur árangur að halda uppi svo góðu listastigi á þessum erfiðu tímum. Þetta varð auðvitað til þess að dómnefndin átti ærið verkefni fyrir höndum, en við erum mjög stolt af niðurstöðunum,“ segir hún að lokum. Hægt er að lesa viðtöl og umfjöllun um sigurvegarana í nýjasta tölublaði Reykjavík Grapevine sem er hægt að nálgast í verslunum, bensínstöðum og veitingastöðum víða um höfuðborgarsvæðið eða á stafrænu formi á Grapevine.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×