Skoðun

Banki fyrir fólk en ekki fjár­magn

Drífa Snædal skrifar

Það er augljóst að nú á að keyra í gegn sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Það er víst „ákall“ eftir því. Ekki er ljóst hvaðan ákallið kemur en geta má nærri að það sé frá væntanlegum kaupendum því ekki kemur það frá almenningi, svo mikið er víst. Könnun eftir könnun hefur sýnt lítinn stuðning við söluna, enda hefur traust eftir síðustu bankasölu og hruns í kjölfarið ekki verið endurheimt. Kjarni málsins er sá að það er verið að taka hlut sem er í eigu okkar allra og selja hann til fárra. Fyrir slíku þurfa að vera góð rök en einu rökin virðast vera hugmyndafræðileg, þ.e. að ríkið (við) eigi ekki að eiga banka. Það hefur hins vegar ekki verið neitt sérstakt vandamál síðustu 12 árin og ágætt að rifja upp af hverju bankarnir komust aftur í ríkiseigu.

Tillaga um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka gefur hins vegar gullið tækifæri til að ræða bankastarfsemi á Íslandi og dusta rykið af þeirri hugmynd að breyta Landsbankanum í samfélagsbanka. Slíkt form byggir á þeirri róttæku hugmynd að fjármálastofnanir vinni í þágu almennings en ekki fjármagnseigenda. Að bankar þurfi ekki endilega að skila gróða, geti verið í almannaeigu og stuðlað að samfélagslega mikilvægum verkefnum. Að einhverju leyti þekkjum við þessa hugmyndafræði í gegnum sparisjóðakerfið eins og það var hugsað í upphafi. Síðustu áratugir hafa hins vegar verið undirlagðir af ofurtrú á að gróðasjónarmið eigi að ráða för í fjármálastarfsemi og að „“fé án hirðis”“ sé skaðlegt.

Við höfum eitt stykki bankahrun til að læra af og lexían er þessi: Það er ekki þjóðinni í hag að taka sameiginlegar eignir hennar og setja í hendur fjármagnseigenda. Bankarnir eru ekki endilega betur settir í einkaeigu. Ef á að breyta eignarhaldi á bönkunum skulum við fyrst tryggja það að fólk geti valið viðskipti við banka í almannaeigu, rekinn á forsendum almennings og til hagsbóta fyrir okkur öll.

Góða helgi, Drífa.

Höfundur er forseti ASÍ.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×