Eftir að Aron Pálmason heltist úr lestinni vegna meiðsla var Arnór Þór Gunnarsson útnefndur fyrirliði íslenska handboltalandsliðsins. Hann fetaði þar með í fótspor yngri bróður síns, Arons Einars, sem er fyrirliði fótboltalandsliðsins.
„Ég hélt að hann [Guðmundur] myndi hafa Alexander sem fyrirliða. Aron er fyrirliðinn okkar og þetta er liðið hans og mér finnst að hann eigi að vera með það á herðunum,“ sagði Ásgeir Örn í Sportinu í dag þar sem fjallað var um handboltalandsliðið og HM í Egyptalandi.
„Fyrst við þurftum að finna einhverja millilausn núna hélt ég að hann myndi velja Lexa því hann er elstur og með mestu reynsluna. Hin leiðin hefði verið að finna varaliða sem er ungur og á nóg eftir. Á hugsaði þá kannski til Elvars [Arnar Jónssonar]. Það kom mér á óvart að hann skyldi velja Adda Mall en hann er toppmaður, þetta er skemmtilegt og ég er glaður fyrir hans hönd.“
Falleg og rómantísk hugmynd
Það kom Theodór Inga Pálmasyni ekki jafn mikið á óvart að Arnór hafi fengið fyrirliðabandið hjá landsliðinu.
„Þegar það verið að ræða var fyrsta nafnið sem mér datt í hug var Addi Mall, kannski bara af því að bróðir hans er fyrirliði fótboltalandsliðsins og manni fannst það eitthvað svo falleg og rómantísk hugmynd,“ sagði Theodór.
Hlusta má á Sportið í dag í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.

Sportið í dag er hlaðvarpsþáttur um íþróttir sem er aðgengilegur á hlaðvarpsvef Vísis og í útvarpsappi Bylgjunnar, FM957 og X-ins. Náðu í appið í App Store og Google Play.