Handbolti

Danski landsliðsþjálfarinn segir að Hansen verði með á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikolaj Jacobsen segir að hann geti nýtt krafta Mikkels Hansen á HM í Egyptalandi.
Nikolaj Jacobsen segir að hann geti nýtt krafta Mikkels Hansen á HM í Egyptalandi. getty/Jan Christensen

Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska karlalandsliðsins í handbolta, er viss um að Mikkel Hansen verði með á HM í Egyptalandi þótt stórskyttan hafi lýst því yfir að hann sé enn að íhuga að spila ekki á mótinu.

Í samtali við Jyllands-Posten sagðist Hansen vera að íhuga hvort hann eigi að fara til Egyptalands vegna hugmynda mótshaldara um að leyfa áhorfendur á HM. Hann kveðst ekki hafa mikinn áhuga á að spila fyrir framan nokkur þúsund manns í miðjum heimsfaraldri kórónuveirunnar.

Aðspurður um ummæli Hansens sagði Jacobsen að viðtalið sé frá því fyrir jól og hann sé fullviss um að Hansen fari með danska liðinu til Egyptalands.

„Það er ekkert í þessu og fyrst hann er kominn til æfinga er hann klár í að fara á HM,“ sagði Jacobsen. „Eina í þessu er að Mikkel hefur hugsað málið eins og ég held að allir leikmenn hafi gert.“

Á blaðamannafundi í lok nóvember sagðist Ashraf Sobhy, íþróttamálaráðherra Egyptalands, vonast til að allt að fimm þúsund manns gætu sótt leiki á HM. Ekki eru allir sammála þessari draumsýn ráðherrans, þar á meðal Jacobsen.

„Þetta er sennilega mesta áhyggjuefnið. Ég held að það ætti að vera leikið fyrir luktum dyrum. Það yrði öruggast fyrir alla,“ sagði Jacobsen.

Danir eiga titil að verja á HM en þeir urðu heimsmeistarar á heimavelli og í Þýskalandi fyrir tveimur árum.

Fyrsti leikur Danmerkur á HM er gegn strákunum hans Halldórs Sigfússonar í Barein 15. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×