Handbolti

Íhugar að hætta við HM vegna áhorfenda

Sindri Sverrisson skrifar
Mikkel Hansen hefur verið einn besti handboltamaður heims um langt skeið en mátti sætta sig við tap gegn Íslandi á EM fyrir ári síðan.
Mikkel Hansen hefur verið einn besti handboltamaður heims um langt skeið en mátti sætta sig við tap gegn Íslandi á EM fyrir ári síðan. Getty/Jan Christensen

Danska handboltastjarnan Mikkel Hansen segist enn íhuga að hætta við að fara á HM í Egyptalandi vegna hugmynda mótshaldara um að leyfa áhorfendur á mótinu.

Þetta segir Hansen í viðtali við Jyllands-Posten en hann hefur ekki áhuga á því að spila fyrir framan allt að 5.000 áhorfendur á mótinu, eins og íþróttamálaráðherra Egyptalands hefur sagt að möguleiki sé á, í miðjum heimsfaraldri.

„Ég væri að ljúga ef ég segði að ég hefði ekki íhugað að gefa ekki kost á mér, og að ég íhugaði það ekki enn. Ég bíð að minnsta kosti eftir upplýsingum um hvernig mótshaldið verður og hvernig skipuleggjendur mótsins hafa hugsað sér að þetta verði mögulegt,“ sagði Hansen.

„Þjónar engum tilgangi“

Hansen, sem er 33 ára, hefur þrisvar verið valinn besti handboltamaður heims og óþarfi að fjölyrða um hve slæmt yrði fyrir Dani að vera án hans þegar HM hefst eftir níu daga.

„Ég veit ekki hvort það ætti að aflýsa mótinu en það ættu að minnsta kosti ekki að vera neinir áhorfendur á svæðinu. Ég sé ekki tilganginn með því að við leikmennirnir séum fastir í sápukúlu uppi á hóteli, neyddir til að einangra okkur frá öllum líkt og konurnar á EM, en förum svo í íþróttahallirnar og spilum fyrir framan fjölda fólks. Það þjónar engum tilgangi,“ sagði Hansen, og bætti við:

„Það er erfitt fyrir mig að sjá hvernig það á að takast að fá fjölda fólks inn í hallirnar án þess að það skapi hættu fyrir okkur. Það er ástæða fyrir því að vellirnir eru tómir um allan heim núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×