Skoðun

Heilsa fyrirtækja

Hildur Jakobína Gísladóttir skrifar
Ímyndaðu þér að fyrirtæki eða opinber stofnun sé manneskja úr holdi og blóði. Manneskja sem hefur sinn eigin karakter og hefur mótað lífsskoðanir sínar og viðhorf út frá reynslu og uppeldi.

Það getur veikst af bæði smávægilegum og alvarlegum sjúkdómum, verið í „dysfunctional“ samskiptum og þarf stundum á stuðningi og aðstoð að halda þegar á móti blæs. Það getur verið með heilbrigð lífsviðhorf og sterka siðferðiskennd, getur glímt við „tilfinningalegan vanda“ eða jafnvel verið haldið persónuleikaröskun.

Ábyrgð æðsta stjórnenda fyrirtækja á hegðun starfsmanna innan fyrirtækisins er mikil. Sá aðili eða sú stjórn sem þá ábyrgð ber, þarf að hafa gott eftirlit með því að heilbrigð samskipti séu á milli starfsmanna. Þeir bera ábyrgð á því að fyrirtækinu sé stjórnað með heilbrigðum og viðurkenndum stjórnunaraðferðum.

Ef þessu er ekki sinnt eykur það líkurnar á að vinnuumhverfið verði það sem kallast „toxic“ eða óheilbrigt og hefur bein neikvæð áhrif á starfsmannaanda, þjónustu og afkomu fyrirtækisins. Menning sem er óheilbrigð getur fests í sessi og skaðað ímynd fyrirtækisins eða stofnun.

Stjórnendur sem taka ekki á vanda sem er erfiður og forðast nauðsynleg átök sitja uppi með vinnustað sem hægt er að líkja við fjölskyldu sem þjáist af einkennum alkóhólisma. Andrúmsloftið er þrungið, enginn tjáir sig um sýnilegan vanda og fólk fer að verða meðvirkt. Það er augljóst að þetta hefur lamandi áhrif á alla framgöngu innan fyrirtækisins auk þess sem þetta getur haft neikvæð áhrif á þjónustu og svo afkomu fyrirtækja. Heilbrigt starfsfólk fær oftast nóg af ástandinu og hættir. Sá sem er spilltur situr hins vegar sem fastast. Þannig sitja fyrirtækin uppi með veikasta hlekkinn af starfsmönnum í veiku fyrirtæki eða stofnun.

Rétt eins og mannfólkið geta fyrirtæki fengið „pestir“ sem hægt er að laga með hæfilegum skammti af sýklalyfjum en kúnstin er að greina vandann og taka á honum áður en hann verður alvarlegri og jafnvel ólæknandi. Yfirsýnin er hér mjög mikilvæg. Yfirsýn æðsta stjórnanda og vissa hans um að millistjórnendur séu að sinna fyrirtækinu út frá hagsmunum þess í stað eigin hagsmuna.

Fyrirtæki eru lifandi afl, þar vinnur fólk. Það er því eins með fyrirtækin eins og manninn sem þarf að huga að heilsunni, borða hollt, hreyfa sig reglulega og fara í læknisskoðun, það þarf að viðhalda, fylgjast með, taka púlsinn, greina og meðhöndla. Þetta snýst allt um menningu og þróun fyrirtækisins og að byggja góðan og heilbrigðan grunn sem stoð fyrir það sem á ofan er byggt. Hegðun fólks er hægt að breyta og það skiptir höfuðmáli að reka og geta unnið á heilbrigðum vinnustað og ráða inn stjórnendur og annað starfsfólk með heilbrigð viðhorf og sterka siðferðiskennd til að innleiða þau gildi til annarra starfsmanna og mynda þar með sterkan grunn.

Þú sem berð þessa ábyrgð á þínum vinnustað, yfir til þín.




Skoðun

Sjá meira


×