Sport

KA sló FH út

KA-menn gerðu það sem fæstir áttu von á að þeir gæti - slógu nýkrýnda Íslandsmeistara FH út úr bikarnum í gærdag þegar liðin mættust á Laugardalsvelli í undanúrslitunum. Þar með hefndu þeir ófaranna frá því um síðustu helgi en þá sigruðu FH-ingar fyrir norðan, tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn og sendu KA-menn um leið beinustu leið niður í 1. deild. KA mætir annað hvort HK eða Keflavík í úrslitaleiknum en þessi lið mætast einmitt klukkan tvö í dag í seinni undanúrslitaleiknum. Leikurinn fór frekar rólega af stað, FH-ingar, eins og við mátti búast, voru mun meira með boltann en þeim gekk erfiðlega að skapa sér einhver færi að ráði. Reyndar fékk Jón Þorgrímur Stefánsson ágætt færi á 9. mínútu en KA-menn björguðu á línu. Á 28. mínútu komst síðan Ásgeir Gunnar Ásgeirsson aleinn innfyrir en skot hans fór framhjá. Aðeins tveimur mínútum síðar átti Heimir Guðjónsson hræðilega sendingu til baka á Tommy Nielsen, Hreinn Hringsson var fljótur að átta sig og hirti boltann, stakk sér innfyrir og skoraði af öryggi. Þetta var verulega þungt högg fyrir FH og sér í lagi Heimi Guðjónsson sem náði sér aldrei á strik eftir þetta og var nánast eins og skugginn af sjálfum sér. Þróunin það sem eftir lifði leiks var sú að FH-ingar sóttu án afláts en KA-menn lágu í skotgröfunum, gráir fyrir járnum, og voru síðan þrælfljótir að bregða sér í skyndisóknirnar um leið og færi gafst. Þar fór fremstur í flokki Dean Martin, bæði skapaði hann talsverða hættu nokkrum sinnum en ekki síður var hann duglegur að vinna tíma og gera FH-inga enn óþolinmóðari en ella. Á 73. mínútu voru FH-ingar ansi nálægt því að jafna, Atli Viðar Björnsson átti þá tvö skot, annað varði Sandor Mátus en hitt var varið á línu. Fjórum mínútum fyrir leikslok fór boltinn svo í þverslá KA-marksins eftir skot Ármanns Smára Björnssonar. Var það síðasta alvöru færi leiksins og KA-menn fögnuðu gríðarlega í leikslok enda sigurinn frábær uppbót fyrir fallið frá því um síðustu helgi. Þeir spila því til úrslita um bikarinn í þriðja sinn, voru ansi nálægt honum árin 1992 og 2001 og hver veit nema þetta takist hjá þeim í þriðju tilraun. Allt KA-liðið lagði sál sína að veði í þessum leik - allir leikmenn börðust eins og ljón og gáfust aldrei upp þrátt fyrir sívaxandi sóknarþunga anstæðinganna. FH-ingar voru hins vegar alveg heillum horfnir í þessum leik. Liðið náði aldrei þeim takti sem verið hefur í því meginpart sumars og spurningin er sú hvers vegna það gerist einmitt í þessum mikilvæga leik. Hvort liðið hafi einfaldlega ekki verið komið niður úr skýjunum eftir sigurinn um síðustu helgi skal ósagt látið en það var eitthvað meira en lítið að í þessum leik. Þótt Heimir Guðjónsson hafi ekki leikið eins og hann á sér og að flensa hafi hrjáð Allan Borgvardt þá á breidd FH-liðsins að vera það góð að þeir geti brugðist við slíku. Það náði liðið hins vegar ekki að gera, hverju svo um er að kenna, og þrátt fyrir ótal sóknarlotur hafði maður það á tilfinningunni allan leiktímann að leikmönnum liðsins væri gjörsamlega fyrirmunað að skora.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×