Það er eitthvað við Asíu og Lee Westwood en Englendingurinn sigraði á sínu áttunda móti á asísku PGA-mótaröðinni um helgina en hann lék best allra á Thailand Golf Championship sem fram fór á Amata Spring vellinum í Tælandi.
Westwood lék hringina fjóra á átta höggum undir pari og sigraði að lokum með einu höggi en US Open sigurvegarinn Martin Kaymer og Marcus Fraiser deildu öðru sætinu á sjö höggum undir pari.
„Ég elska að koma hingað og spila golf,“ sagði Westwood við fréttamenn eftir sigurinn. „Það er alltaf gaman að leika vel á lokahringnum og sigra mótið á þann hátt, þegar að ég sigraði hérna árið 2011 var ég með yfirburðastöðu nánast allt mótið þannig að þetta var meira taugatrekkjandi í ár.“
Margir þekktir kylfingar tóku þátt í mótinu en þar má nefna Sergio Garcia sem endaði á tveimur undir pari, Bubba Watson sem endaði á fjórum yfir pari og svo Darren Clark sem lék hringina fjóra á níu höggum yfir pari.
Lee Westwood sigrar enn og aftur í Asíu
