Innlent

Upplýsingafulltrúi tékkneska tollsins segir að þeir hafi viljað ná fleirum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Ekkert liggur fyrir um hvort fíkniefnin sem tvær íslenskar stúlkur voru handteknar með í Tékklandi á dögunum hafi átt að koma hingað til lands. Enn er ekki að fullu ljóst hve mörg kíló kókaíns voru í farangri þeirra.

Eins og við greindum frá í gær voru stúlkurnar sem báðar eru átján ára gamlar handteknar fyrir utan flugstöðina í Prag í Tékklandi en þær voru að koma frá Sao Paulo í Brasilíu með viðkomu í Munchen í Þýskalandi. Það voru þýskir tollverðir sem töldu sig sjá eitthvað óhreint í pokahorni stúlknanna en þrátt fyrir það var þeim hleypt áfram til Tékklands þar sem þær voru handteknar með nokkur kíló af kókaíni vandlega falin í töskum sínum.

Jiri Bartak, upplýsingafulltrúi tékknesku tollgæslunnar segir í samtali við fréttastofu að ástæða þess að þeim var leyft að halda för sinni áfram hafi verið sú að menn vonuðust eftir því að ná fleirum sem viðriðnir væru málið.

„En nú höfum við bara þessar tvær stúlkur," segir Jiri.

Slóðin varð köld í Prag þar sem þeirra beið leigubílstjóri sem aðeins hafði fengið fyrirmæli frá óþekktum aðila um að aka þeim á járnbrautarstöðina en þaðan átti leiðin að liggja til Kaupmannahafnar.

Bartak segir að rannsókn málsins sé enn í fullum gangi og meðal annars sé verið að kanna styrkleika efnanna sem voru í töskum stúlknanna. Þá liggi ekki nákvæmlega fyrir um hve mikið magn sé að ræða.

Bartak segist ekki geta tjáð sig um hvort íslensk lögregluyfirvöld hafi komið eitthvað að rannsókn málsins og Karl Steinar Valsson yfirmaður fíkniefnadeildarinnar hér á landi vildi aðspurður ekkert tjá sig um málið.

Faðir annarrar stúlkunnar sem fréttastofa hefur rætt við segist í raun lítið vita um málið. Erfitt sé að vita af dóttur sinni einni í fangelsi í ókunnu landi. En stúlkurnar sem eru góðar vinkonur hafa nú verið úrskurðaðar í sjö mánaða gæsluvarðhald.

Hann segir fjölskylduna hafa fengið þær fréttir að málið eigi eftir að skýrast frekar í næstu viku, en eftir því sem fréttastofa kemst næst stendur til að yfirheyra stúlkunnar nú strax eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×