Erlent

Útgjöld til varnarmála stóraukin



Velferðarkerfið bíður lægri flut fyrir varnarmálum í tillögu George Bush Bandaríkjaforseta að nýju fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2007. Samkvæmt því verða útgjöld til varnarmála sextán prósent af öllum útgjöldum bandaríska ríkisins.

Samkvæmt tillögunni fara fjögur hundruð þrjatíu og níu milljarðar dollara í varnarmál árið 2007. Það samsvarar ríflega tuttugu og fimm þúsund milljörðum króna. Til samanburðar er áætlaður kostnaður Bandaríkjanna vegna veru varnarliðsins í Keflavík um tvö hundruð og fimmtíu milljónir dollara á ári. Það er tæplega einn átjánhundruðasti af útgjöldum Bandaríkjanna til varnarmála samkvæmt tillögu Bush.

Inni í upphæðinni eru ekki aukafjárveitingar vegna aðgerða í Írak og Afghanistan, sem sérfræðingar telja öruggt að farið verði fram á ef ekki verði stórkostlegar breytingar á áætluðum aðgerðum í löndunum tveimur. Þá verða útgjöld vegna heimavarnarmála líka aukin um rösklega þrjú prósent ef tillögur forsetans ná fram að ganga.

En á sama tíma og útgjöld til varnarmála eru aukin um tæplega sjö prósent, miðað við fjárlög ársins í ár, er skorið niður bæði í heilbrigðis- og menntamálum. Sérstök áætlun um bætta heilbrigðisþjónustu fátækra, fatlaðra og eldri borgara verður skorin niður um nærri átján hundruð milljarða króna á næstu fimm árum ef tillögurnar verða að veruleika.

Þetta hafa demókratar gagnrýnt harðlega og segja að í tillögunum sé óheyrilegum fjárhæðum eytt í gæluverkefni og í staðinn eigi að taka af þeim sem síst megi við því.

En þeir sem til þekkja segja þrátt fyrir það allar líkur á að ekki verði hróflað við þeirri háu upphæð sem lagt er til að fari í varnarmál, því Demókratar á Bandaríkjaþingi megi einfaldlega ekki við því að fá á sig orð fyrir að taka vægt á hryðjuverkum.

Auknar fjárveitingar í velferðarmál verði því að taka annars staðar frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×