Erlent

Hræðileg aðkoma

Aðkoman að vettvangi þar sem bensínflutningabíll sprakk í loft upp í Kongó á föstudag var hræðileg. Joseph Kabila, forseti landsins, lýsti í dag yfir tveggja daga þjóðarsorg vegna hörmunganna. Varað er við myndskeiðinu sem fylgir þessari frétt.

Nákvæm tala þeirra sem fórust í slysinu liggur ekki fyrir en talið er að minnsta kosti 231 hafi farist og tæplega tvö hundruð slasast mjög mikið. Bílstjóri bensínflutningabílsins var að reyna að taka fram úr smárútu í þorpinu Sange í norðurhluta Kongó, þegar hann valt og bensín sprautaðist úr tanknum. Seinna varð sprenging í bílnum en í næsta nágrenni höfðu hundruð manna komið saman til að horfa á heimsmeistaramótið í knattspyrnu. En áður en sprengingin varð hafði fólk hópast í kringum bensínflutningabílinn með dollur og dósir til að verða sér út um frítt bensín og hlýddu ekki fyrirmælum friðargæsluliða um að halda sig frá bílflakinu.

Sjálfboðaliðar koma líki fyrir fjöldagröf. Mynd/AP
Björgunarliðar hófu að grafa hina látnu í tveimur fjöldagröfum í dag en margt af fólkinu er svo illa brennt að ekki er hægt að bera kennsl á það. Þá eru margir þeirra sem lifðu slysið af mikið slasaðir. Að minnsta kosti 61 barn og 36 konur eru meðal hinna látnu.

Þessar hörmungar leggjast ofan á ömurlegar aðstæður sem fólk á þessum slóðum, þar sem engin lög eru virt, hefur búið við árum saman og þá sérstaklega í blóðugu stríði sem stóð frá 1996 til 2001.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×