Handbolti

Glæsilegur sigur á Þýskalandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson átti góðan leik í íslenska markinu í dag.
Björgvin Páll Gústavsson átti góðan leik í íslenska markinu í dag. Nordic Photos / Bongarts

Íslenska handboltalandsliðið hóf undirbúninginn fyrir EM í Austurríki með glæsibrag er liðið vann sigur á Þýskalandi fyrir fullu húsi í Nürnberg, 32-28.

Þjóðverjar höfðu tveggja marka forystu í hálfleik, 16-14, en glæsilegur lokakafli íslenska sá til þess að það vann fjögurra marka sigur.

Þetta var fyrsti alvöru landsleikur Íslands síðan í júní í fyrra og sá fyrsti sem Ólafur Stefánsson leikur síðan á Ólympíuleikunum í Peking fyrir tæpu einu og hálfu ári síðan.

Það breytti engu. Hann var einfaldlega besti leikmaður íslenska liðsins. Ólafur skoraði tíu mörk í leiknum, þar af sex af vítalínunni auk þeirra fjölda stoðsendinga sem hann gaf í leiknum.

Ísland virtist þó nokkuð ryðgað í byrjun og Þýskaland skoraði fyrstu tvö mörkin í leiknum. Það var þó ekkert óðagot á leik íslenska liðsins. Leikmenn léku þvert á móti af mikilli yfirvegun og náðu hægt og rólega yfirtökunum í leiknum.

Einna helst höfðu menn áhyggjur af vinstri væng íslenska liðsins fyrir leikinn þar sem Logi Geirsson varð eftir heima meiddur. Það var ástæðulaust því Arnór Atlason skoraði þrjú mörk á fyrsta korterinu og Ísland með yfirhöndina í leiknum.

En þá kom afar slæmur leikkafli og Þýskaland skoraði fjögur mörk í röð og komst fimm mörkum yfir, 14-9. Enn létu íslensku leikmennirnir ekki slá sig af laginu og skoruðu fljótlega sjálfir fjögur mörk í röð.

Seinni hálfleikur byrjaði heldur ekki nægilega vel en stórbatnaði eftir því sem á leið. Lykilatriði var að Þýskaland náði aldrei að stinga af í leiknum og Ísland komst yfir um miðjan síðari hálfleikinn með mikilli seiglu.

Þessa forystu lét Ísland aldrei aftur af hendi og lék liðið afar sterkan varnarleik á síðasta hluta leiksins sem þýska sóknin lenti í miklum vandræðum með. Þjóðverjar létu hverja sóknina á fætur annarri renna út í sandinn og það nýtti Ísland sér og vann að lokum með fjögurra marka mun sem fyrr segir.

Björgvin Páll Gústavsson átti frábæran leik í íslenska markinu og varnarleikur Íslands var á köflum mjög góður, sér í lagi í síðari hálfleik. Hann datt þó niður inn á milli, rétt eins og sóknarleikurinn.

Ólafur Stefánsson, Snorri Steinn Guðjónsson, Arnór Atlason og Róbert Gunnarsson voru allt í öllu í íslensku sókninni en hornamennirnir Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson náðu sér engan veginn á strik fyrr en á lokamínútum leiksins.

Vignir Svavarsson átti mjög sterka innkomu í íslensku vörnina og Sturla Ásgeirsson í sókninni. Aron Pálmarsson fékk einnig að spreyta sig í leiknum.

Það var augljóst að Ísland spilaði ekki sinn besta leik í kvöld en engu að síður var niðurstaðan afar jákvæður sigur á öflugu liði Þjóðverja í Þýskalandi.

Ísland - Þýskaland 32 - 28 (14-16)



Mörk Íslands (skot): Ólafur Stefánsson 10/6 (13/7), Snorri Steinn Guðjónsson 5/1 (7/2), Arnór Atlason 5 (9), Guðjón Valur Sigurðsson 3 (9), Sturla Ásgeirsson 2 (3), Alexander Petersson 2 (4), Róbert Gunnarsson 2 (5), Vignir Svavarsson 1 (1), Björgvin Páll Gústavsson 1 (1), Aron Pálmarsson 1 (5).

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 20 (47/2, 43%), Hreiðar Levý Guðmundsson 1/1 (2/2, 50%).

Hraðaupphlaup: 9 (Guðjón Valur 2, Róbert 1, Ólafur 1, Arnór 1, Snorri Steinn 1, Vignir 1, Aron 1, Sturla 1).

Fiskuð víti: 8 (Róbert 5, Guðjón Valur 2, Alexander 1).

Utan vallar: 10 mínútur.



Mörk Þýskalands (skot)
: Lars Kaufman 6 (10), Michael Kraus 6/2 (7/3), Michael Müller 4 (6), Manuel Späth 3 (3), Torsten Jansen 2/1 (5/1), Mathias Flohr 2 (2), Holger Glandorf 1 (3), Stefan Schröder 1 (3), Martin Strobl 1 (2), Sven-Sören Christophersen 1 (2), Christoph Theuerkauf 1 (1), Christian Sprenger (2).

Varin skot: Carsten Liechtlein 10/1 (20, 50%), Silvio Heinevetter 9 (31/8, 29%).

Hraðaupphlaup: 9 (Späth 2, Kaufman 1, Schröder 1, Jansen 1, Kraus 1, Müller 1, Christophersen 1, Flohr 1).

Fiskuð víti: 4 (Späth 2, Christophersen 1, Sprenger 1).

Utan vallar: 8 mínútur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×