Innlent

Stærri flóð í Jöklu?

Staðkunnugir segja óhætt að búast við mun stærri flóðum í Jökulsá á Dal en því sem nú er afstaðið. Göngin sem grafin hafi verið til að veita ánni fram hjá Kárahnjúkastíflu séu einfaldlega of þröng. Engar tilraunir voru gerðar með líkan af göngunum við hönnun þeirra. Hjáveitugöngin við stíflugerðarsvæðið önnuðu ekki vöxtunum í ánni undanfarna daga og því var reistur risavarnargarður til að vernda svæðið. Þessi bráðabirgðavarnargarður er langhæsta stífla landsins. Jökla er hinsvegar orðin róleg í bili og flóðahættan liðin hjá. Kostnaðurinn hleypur á tugum milljóna króna og einnig töfðust framkvæmdir við gerð Kárahnjúkastíflu um viku. Eftir stendur spurningin, hvað klikkaði? Sigurður Arnalds, talsmaður Landsvirkjunar við Kárahnjúkavirkjun, segir að ekki verði hægt að komast að niðurstöðu um það fyrr en menn komast inn í göngin þegar lækkar í ánni í september. Við hönnun ganga sem þessara er venjulega smíðað líkan og gerðar tilraunir með það. Það var ekki gert í þessu tilfelli þar sem um bráðabirgðamannvirki er að ræða. Það voru því eingöngu stærðfræðiútreikningar sem lágu að baki hönnuninni og þeir geta aldrei verið alveg nákvæmir, segir Sigurður. Hann segir að aldrei hafi verið talin hætta af vatnavöxtum í ánni því alltaf var hægt að hækka varnargarðinn. Vilhjálmur Snædal, bóndi á Skjöldólfsstöðum, þekkir Jöklu vel enda búið við hlið hennar í áratugi. Hann segist hafa „fiktað“ við hana sem krakki og ávallt fylgst vel með henni. Vilhjálmur segist muna eftir Jöklu í mun meiri ham en síðustu daga - áin eigi mun meira til. Tvenn göng taka við vatninu, önnur eru sex metrar í þvermál, hin eru níu metrar. Vilhjálmur segir ljóst að göngin séu einfaldlega of þröng og blæs á tal um grjóthrun því áin hefði hreinsað það fljótt. Hann telur því að mistök hafi átt sér stað á teikniborði verkfræðinga. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×