Erlent

Ætlar ekki að segja frá slysinu

Kylfingurinn heimsfrægi ætlar ekki að tjá sig um hvað varð til þess að hann klessti bíl sínum á brunahana og tré við heimili sitt á föstudaginn. 
fréttablaðið/ap
Kylfingurinn heimsfrægi ætlar ekki að tjá sig um hvað varð til þess að hann klessti bíl sínum á brunahana og tré við heimili sitt á föstudaginn. fréttablaðið/ap

Kylfingurinn Tiger Woods segir bílslysið sem hann lenti í á föstudag hafa verið honum sjálfum að kenna. Hann frestaði því í þriðja sinn í gær að ræða um atvikið við lögreglu.

Woods sagði í tilkynningu á heimasíðu sinni að slysið sé orðið vandræðalegt fyrir hann og fjölskyldu hans. Miklar vangaveltur hafa verið uppi í fjölmiðlum um hvað olli því að Woods klessti bíl sínum á brunahana og tré í nágrenni við heimili sitt. Meðal annars hefur því verið haldið fram að Woods hafi verið á flótta undan konu sinni eftir heiftarlegt rifrildi. Fjölmiðlar höfðu greint frá því að Woods hefði átt í ástarsambandi við aðra konu, en bæði kylfingurinn og konan umrædda neita því.

Jafnframt segir Woods í yfirlýsingunni að kona hans hafi brugðist við á hetjulegan hátt og bjargað honum út úr bílnum eftir slysið. Hún greindi lögreglu frá því að hún hafi þurft að nota golfkylfu til þess að brjóta afturrúðu bílsins og ná manni sínum út.

Að öðru leyti segist Woods ekki ætla að tjá sig um málið. Hann segist þó skilja að fólk vilji vita hvað átti sér stað. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×