Erlent

Fagnaði sprengjuregni nasista

Í réttarsal Heinrich Boere bjó í Hollandi þegar Þjóðverjar gerðu innrás árið 1940.nordicphotos/AFP
Í réttarsal Heinrich Boere bjó í Hollandi þegar Þjóðverjar gerðu innrás árið 1940.nordicphotos/AFP

 „Þeir eru að koma. Nú verður allt betra,“ segir Heinrich Boere að móðir sín hafi sagt þegar þýski herinn gerði innrás í Holland árið 1940.

Hann var þá ungur maður og segist hafa fylgst hrifinn með því þegar sprengjuregnið féll úr þýskum flugvélum ofan á Maastricht þar sem hann bjó ásamt foreldrum sínum, þýskri móður og hollenskum föður.

Boere er nú 88 ára gamall og ákærður fyrir stríðsglæpi. Í gær tjáði hann sig í fyrsta sinn í réttarhöldum, sem hófust í október í Aachen í Þýskalandi.

Hann gekk í þýska innrásarherinn í Hollandi aðeins átján ára gamall og segist hafa verið stoltur af því að hafa fengið inngöngu. Hann barðist með þýska hernum á austurvígstöðvunum í Rússlandi, en fór síðan til Hollands þar sem hann starfaði fyrir Þjóðverja með sveitum hollenskra sjálfboðaliða. Þær sveitir hafa verið sakaðar um að hafa drepið fólk úr hollensku andspyrnuhreyfingunni.

Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi í Hollandi árið 1949 fyrir að hafa drepið þrjá Hollendinga, en tókst að sleppa úr fangabúðum til Þýskalands. Alla tíð síðan hefur hann verið var um sig og treysti sér ekki einu sinni til að kvænast.

„Ég þurfti alltaf að reikna með að fortíðin gæti náð í skottið á mér, og vildi ekki leggja það á neina konu.“ - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×