Innlent

Samkomulag um háhraðanet til allra landsmanna

Kristján L. Möller, samgönguráðherra.
Kristján L. Möller, samgönguráðherra.
Fjarskiptasjóður og Síminn undirrituðu í dag samning um uppbyggingu háhraðanets um allt land. Með samningum er öllum landsmönnum tryggt háhraðanet fyrir árslok 2010. Um er að ræða tæplega 1800 heimili og verða þau fyrstu tengd innan mánaðar. Samningurinn er til fimm ára.

Fram kemur í tilkynningu að vinna við uppbygginguna hefjist strax og geta fyrstu heimilin nýtt sér netþjónustu Símans við lok marsmánaðar. Áætlað er að tengingu tæplega 1800 staða ljúki við lok næsta árs.

Það er mikilvægt að nú sé hægt að staðfesta síðasta áfangann í þeirri uppbyggingu sem fram hefur farið á fjarskiptasviðinu síðustu árin í samræmi við fjarskiptaáætlun, er haft eftir Kristjáni L. Möller samgönguráðherra í tilkynningunni.

Eðlilegur og sjálfsagður þáttur



,,Háhraðanetsamband er löngu orðinn eðlilegur og sjálfsagður þáttur í daglegu lífi okkar og því nauðsynlegt að allir landsmenn sitji við sama borð í þeim efnum. Nú verður gengið rösklega til verks og byrjað á Vestfjörðum, Norðausturlandi og Austfjörðum og í síðari áfanga verksins verður farið í aðra landshluta," segir Kristján.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, fagnar að samkomulagið sé að verða að veruleika þrátt fyrir erfiðleika í þjóðarbúinu. Háhraðatenging við internetið sé hluti af þeim lífsgæðum sem íbúar í nútímaþjóðfélagi gera kröfu um.

606 milljónir

Samningsfjárhæðin er 606 milljónir króna og Í samningnum felst að Fjarskiptasjóður veitir Símanum fjárstyrk til uppbyggingar á háhraðanetkerfi og háhraðanetþjónustu sem nær til staða sem ekki hafa aðgang að slíkri þjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×