Innlent

Seðlabankafrumvarpið endar í klúðri

Birgir Ármannsson segir breytingatillöguna einsdæmi.
Birgir Ármannsson segir breytingatillöguna einsdæmi.
Birgir Ármannsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í viðskiptanefnd Alþingis, segir að meðferð seðlabankafrumvarpsins hafi endað í algjöru klúðri líkt. Á fundi viðskiptanefndar í kvöld var frumvarpið samþykkt úr nefnd og verður að öllum líkindum að lögum á morgun.

Breytingartillagan, sem kom frá fulltrúum stjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins, felur í sér að ef peningastefnunefnd metur það svo að alvarlegar hættur sem ógni fjármálakerfinu steðji að skuli hún opinberlega gefa út viðvörun þegar tilefni er til.

Birgir segir að með þessu sé verið að breyta eðli peningastefnunefndar. „Það var ekki hlutverk hennar að fylgjast með fjármálalegum stöðugleika," segir Birgir. Hann gagnrýnir að breytingatillagan hafi verið samþykkt án þess að til nefndarinnar hafi verið kallaðir nokkrir sérfræðingar til að meta áhrif af henni.

Birgir bendir jafnframt á að í dag hafi verið kynnt skýrsla ESB um fjármálastarfsemi. „Við stóðum í þeirri trú að nefndin fengi tækifæri til þess að fjalla um skýrsluna," segir Birgir. Hann segir að hins vegar hafi ekki gefist færi á að fara út í þær umræður þar sem stjórnarflokkarnir og framsókn hafi komið með tillögu sína tilbúna til afgreiðslu

Þá segir Birgir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í viðskiptanefnd fái ekki betur sé en að breytingartillagan sem samþykkt var eigi sér enga stoð í skýrslu ESB. „Ég held að þessi breytingatillaga sé einsdæmi í löggjöf um seðlabanka. Ég held að það sé ekki hægt að finna hana í löggjöf um seðlabanka í neinu öðru ríki," segir Birgir. Birgir segir því að meðferð seðlabankafrumvarpsins í þinginu hafi endað í algjöru klúðri, en bætir því við að þannig hafi málið nú reyndar líka byrjað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×