Innlent

Gríðarlegur áhugi á sjósundi - opnunartími lengdur

Frá Ylströndinni í Nauthólsvík.
Frá Ylströndinni í Nauthólsvík. MYND/Árni Jónsson
,,Aðsóknin hefur verið að aukast í hverri viku og það er alltaf að koma nýtt fólk," segir Árni Jónsson, deildarstjóri í útivistarmiðstöð Nauthólsvíkur, um gríðarlegan áhuga fólks um þessar mundir á sjósundi.

Vegna aukinnar eftirspurnar og mikillar þátttöku í sjósundi hefur Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur ákveðið að auka vetraropnun á Ylströndinni.

Árni segir að í janúar í fyrra hafi 246 skráð sig í gestabók í útvistarmiðstöðinni en í seinasta mánuði hafi 1036 skráð sig. Árni telur líklegt að vegna mikils fjölda nái starfsfólkið ekki að minna alla gesti á að skrá sig í gestabókina þannig að fjöldinn sé að öllum líkindum enn meiri.

Föstudaginn 27. febrúar verður opið á milli klukkan 11 og 13 og verður sú opnun áfram á föstudögum fram á sumar. Áfram verður opið á mánudögum frá klukkan 17 til 19 og á miðvikudögum frá 11 til 13 og aftur klukkan 17 til 19.

,,Ég mæli með þessu," segir Árni og bætir við að þeir sem stundi sjósund reglulega tali um að þeir finni minna fyrir kvefi og kulda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×