Innlent

Gagnrýna yfirgang síonista

MYND/AP

Íranskir ráðamenn vilja má Ísrael af landakortinu en segjast alls ekki hafa í hyggju að fara með ofbeldi gegn landinu. Þeir gagnrýna yfirgang síonista sem þeir segja að stjórni Sameinuðu þjóðunum.

Mahmoud Ahmedinajad, forseti Írans, gerði í vikunni orð erkiklerksins Kómeiní að sínum og lýsti þeirri skoðun sinni að útmá ætti Ísraelsríki. Orðið hafa vakið hörð viðbrögð víða um heim og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmdi þau í gær.

Dan Gillerman, fastafulltrúi Ísraela hjá Sameinuðu þjóðunum, segist fagna fordæmingu Öryggisráðsins á orðum Írana. Hann segir ummælin ekki eingöngu vekja hörð viðbrögð vegna alvarleika þeirra og hættunar sem í þeim felist, heldur einnig vegna þess að þau lyfti hulinni af þeim öfgum trúarbragða og geggjun sem hann segir að fylgi þessari stórhættulegu einræðisstjórn í Íran. Hann segir að Íranar verði að taka fordæmingu Öryggisráðsins alvarlega, "mjög alvarlega."

Það var þó ekki til að mótmæla orðum Ahmedinajads sem hundruð mótmælenda gengu um götur Berlínar í dag, heldur til að krefjast þess að hernumdu svæði Palestínumanna yrðu látin af hendi og að gagnrýna Ísraelsríki. Annars staðar í borginni safnaðist annar hópur saman til að sýna Ísrael stuðning og krefjast þess að íslamska lýðveldið verði lagt niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×