Lífið

Valdís fékk Bafta-verðlaunin

Valdís Óskarsdóttir fékk bresku kvikmyndaverðlaunin, Bafta, sem veitt voru í gærkvöld. Verðlaunin fékk Valdís fyrir klippingu myndarinnar Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Óhætt er að segja að þetta sé ein mesta viðurkenning sem Íslendingur hefur fengið á sviði kvikmyndagerðar. Það má segja að Bafta-verðlaunin séu eins konar Óskar eða Edda Bretanna og því ljóst að þau vekja athygli víða um heim. Þetta eru hins vegar ekki fyrstu verðlaun Valdísar fyrir klippingu þessarar rómuðu kvikmyndar. Hún fékk bæði verðlaun samtak gagnrýnenda á Netinu og samtaka gagnrýnenda í San Diego. Þá hafa samtök kvikmyndaklippara í Bandaríkjunum tilnefnt hana til sinna verðlauna sem verða afhent um næstu helgi. Valdís hefur klippt kvikmyndir í á annan áratug - íslenskar, danskar, sænskar og bandarískar svo eitthvað sé nefnt. Hún hefur tvisvar hlotið verðlaun Dönsku kvikmyndaakademíunnar fyrir vinnu sína við myndirnar Veislan og Síðasti söngur Mifune. Kvikmyndin The Aviator, sem fjallar um bandaríska milljarðamæringinn Howard Hughes, var valin besta kvikmyndin á Bafta-verðlaunaafhendingunni. Hún var tilnefnd til 14 verðlauna en hlaut fern. Mike Leigh fékk verðlaun sem besti leikstjóri fyrir myndina Vera Drake. Charlie Kaufman fékk verðlaun fyrir besta handrit fyrir handritið að Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Jamie Foxx var verðlaunaður fyrir besta leik í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á tónlistarmanninum Ray Charles í myndinni Ray og Imelda Staunton fékk verðlaun fyrir bestan leik leikkonu í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á Veru Drake í samnefndri mynd. Sú mynd var tilnefnd til 11 verðlauna og hlaut þrenn. Fyrir bestan leik í aukahlutverkum voru Clive Owen og Cate Blanchett verðlaunuð, fyrir leik sinn í myndunum Closer og The Aviator.
Valdís ÓskarsdóttirMYND/ÞÖK
MYND/AP





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.