Innlent

Pöddurnar vakna til lífsins

Þegar hlýnar í veðri fara pöddurnar á stjá. Kóngulær spinna vefi, mýflugur suða í eyrum og járnsmiðir tölta um blómabeð. En hvar var allur þessi fjöldi í vetur? Hvert fór hann og hvaðan kom hann? Erling Ólafsson, skordýrafræðingur á Nátturufræðistofnun Íslands, segir ekkert eitt svar til við þessum spurningum. Á landinu séu um 2.000 tegundir paddna sem hver hafi sinn háttinn á. Reglan sé hins vegar sú að þau liggi í dvala sem egg, lirfa, púpa eða fullorðið dýr. Meira að segja innan köngulóa er allur hátturinn á, sumar eru meira að segja á ferðinni um hávetur. Langalgengast er þó að kvikindin liggi í dvala í jarðvegi úti við. Ekki þarf því að hafa áhyggjur að þau liggi í dvala inni í sófum eða stólum enda kuldi þeim nauðsynlegur. Mikið er talað um hlýnandi veðurfar á jörðinni. Erling telur það hafa áhrif á skordýralíf á Íslandi. "Skordýr eru miklir tækifærissinnar og eru fljót að bregðast við þegar færi gefst," segir Erling, spurningin sé bara hvort þau nái að berast til landsins. "Við erum nú dugleg við að bera ýmislegt með varningi," segir Erling. Alltaf eru einhver skordýr að bætast við fánuna sem fyrir er, segir Erling en einnig finnast tegundir sem ekki var vitað um að væru á Íslandi en hafa verið þar lengi, enda segir Erling að ýmislegt nýtt komi í ljós eftir því sem meira er rannsakað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×