Skoðun

Af hverju?

Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar

Ráðherrar hafa ítrekað sagt að þeir vilji frekar gera meira en minna í þessu ástandi. Þeir hafa einnig sagt að nú skiptir máli að við stöndum saman og vinnum saman. Þrátt fyrir þetta gerðust ótrúlegir hlutir á Alþingi fyrr í vikunni því þá gekk þingheimur til atkvæða um efnahagslegar aðgerðir vegna kórónu-faraldursins. Samfylkingin studdi allar tillögur ríkisstjórnarinnar en hver einasti þingmaður VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins, kaus gegn öllum tillögum sem við komum með frá stjórnarandstöðunni, sem þó 47% af þjóðinni kaus í síðustu alþingiskosningum.

Sjö spurningar

  1. Af hverju kusu stjórnarþingmenn gegn tillögum um sérstakar álagsgreiðslur til starfsfólks í heilbrigðis- og félagsþjónustu vegna umönnunar Covid-smitaðra sjúklinga?
  2. Af hverju kusu stjórnarþingmenn gegn tillögu um aukinn stuðning við fjölskyldur langveikra barna sem hafa orðið fyrir tekjutapi vegna faraldursins?
  3. Af hverju kusu stjórnarþingmenn gegn eingreiðslu til eldri borgara eins og öryrkjar fá?
  4. Af hverju kusu stjórnarþingmenn gegn tillögu um aukna fjármuni til nýsköpunar, listafólks og íþróttastarfs en sú starfsemi er lömuð vegna faraldursins?
  5. Af hverju kusu stjórnarþingmenn gegn tillögum um frekari flýtingu mannaflsfrekra framkvæmda. s.s. við Reykjanesbraut, Suðurlandsveg, Vesturlandsveg, Akureyrarflugvöll og á höfuðborgarsvæðinu?
  6. Af hverju kusu stjórnarþingmenn gegn tillögum um aukið fé til fatlaðs fólks, fólks á leigumarkaði og SÁÁ en tekjur þeirra hafa hrunið vegna faraldursins?
  7. Af hverju kusu stjórnarþingmenn gegn lækkun tryggingargjalds á lítil fyrirtæki og gegn auknu fé til hjúkrunarrýma?

Samstarf aðeins í aðra átt?

Þetta er allt tillögur sem auðvelt hefði verið að samþykkja og hefðu ekki sett neitt á hliðina. Þvert á móti eru þetta tillögur sem eru bráðnauðsynlegar núna, ekki síst í ljósi þess að aðgerðarpakki ríkisstjórnarinnar er allt að helmingi lægri en hjá nágrannaþjóðum okkar. Af hverju er ekki gert meira núna fyrst stjórnarliðar tala um að gera meira?

Núna í skugga heimsfaraldurs hefðu ríkistjórnarflokkarnir getað risið upp úr pólitískum skotgröfum og samþykkt einhverjar af tillögum stjórnarandstöðunnar. Við samþykktum allar þeirra tillögur, stórar og smáar.

Merkilegt hvað sumum finnst samstarf og samvinna eigi í raun bara að virka í aðra átt. Forsætisráðherra hefur ítrekað talað um mikilvægi þess að stjórnmálaflokkar sýni samstöðu á þessum tímum. Hvernig væri að hún byrjaði á sínum flokki og sinni ríkistjórn?

Höfundur er alþingismaður Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd Alþingis.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Open

Gunnar Dan Wiium skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.