Skoðun

Heilbrigð skref

Ólafur Þór Gunnarsson skrifar

Það hefur mætt mikið á heilbrigðiskerfinu og starfsfólki þar í faraldrinum sem við göngum í gegnum. Á hverjum degi heyrum við sögur af óeigingjörnu starfi heilbrigðisstarfsfólks, bæði þeirra sem voru í föstu starfi fyrir og einnig bakvarða. Framan af mikið álag í heilsugæslunni við sýnatökur við erfiðar aðstæður og undanfarnar vikur á almennum deildum og gjörgæslum.

Álagið mun síðan aukast á fleiri sviðum, heilsugæslan mun aftur fá aukningu ef að líkum lætur og líkt og í hruninu er líklegt að álag á geðheilbrigðisþjónustu aukist.

Aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar númer tvö kemur til móts við þessar staðreyndir. Horft er sérstaklega til þeirra hluta heilbrigðiskerfisins sem hafa verið undir mestu beinu álagi vegna COVID með sérstöku framlagi til starfsfólks. Þannig sýna stjórnvöld í verki að framlag þessa starfsfólks í baráttunni skiptir máli. Áfram mun reyna verulega á innviði heilbrigðiskerfisins. Þá mun einnig hjálpa sú stefna sem tekin var í upphafi kjörtímabilsins að bæta verulega í innviði og rekstur heilbrigðisþjónustu.

Í pakkanum er einnig horft fram á veginn og bætt verulega í þá þætti sem snúa að geðheilbrigði. Þannig er veitt auknu fé til sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum sem fyrsta stigs þjónustu, og einnig settir fjármunir í að styrkja geðlæknaþjónustu og geðheilbrigðisteymin í öllum heilbrigðisumdæmum. Áherslan sem hér birtist á geðheilbrigðismál er ekki gisk út í loftið heldur byggð á reynslu, bæði af síðustu kreppu og þeim skilaboðum sem þegar hafa komið í tengslum við faraldurinn.

Það er algerlega ljóst að enn eiga eftir að koma upp þættir í þessum faraldri sem enginn sá fyrir. Við vitum ekki hvernig spilast úr þegar við losum um samkomubann, við vitum ekki hvernig staðan breytist þegar við byrjum að hreyfa okkur meira um landið, koma meira saman. Aðgerðir stjórnvalda nú taka mið af því. Hér er ekki verið að setja fram neina lokalausn, heldur skynsamlegt skref. Næstu skref munu svo ráðast af því hvernig faraldurinn þróast í vor og í sumar.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×