Innlent

Háskólinn þarf meira fjármagn fyrir sumarnám

Háskóli Íslands á erfitt með að taka á móti nemendum í sumar ef ekki kemur til aukið fjármagn. Mynd/ Stefán.
Háskóli Íslands á erfitt með að taka á móti nemendum í sumar ef ekki kemur til aukið fjármagn. Mynd/ Stefán.
Háskóli Íslands getur ekki orðið við óskum stúdenta um sumarnám að verulegu leyti nema til komi auknar fjárveitingar til Háskólans. Málið var rætt á fundi háskólaráðs á fimmtudag og þar lýstu fulltrúar í háskólaráði ríkum vilja til þess að finna farsæla og skjóta lausn á málinu.

„Allt bendir til að Háskólinn fái ekki fjárveitingu til kennslu um 1.400 nemenda skólans sem hófu nám um síðustu áramót. Jafngildir þetta því að um áttundi hver nemandi stundi nám við skólann án kennsluframlags. Að auki hafa fjárframlög til Háskólans verið skorin niður um nálega 900 milljónir króna á þessu ári. Háskóli Íslands hefur ráðist í viðamiklar aðhaldsaðgerðir til að mæta þessum mikla niðurskurði en þó gætt þess vandlega að halda uppi ýtrustu kröfum um gæði kennslu þannig að prófgráður frá skólanum standist alþjóðlegar gæðakröfur. Í ljósi stöðunnar er því ekki unnt að auka framboð á námi og prófum í sumar nema sérstök fjárveiting fáist," segir í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

Þá segir að Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskólans, hafi óskað eftir viðræðum við stjórnvöld um sameiginlega lausn vandans en ekki sé unnt að taka frekari ákvarðanir í málinu fyrr en niðurstaða þeirra viðræðna liggi fyrir.

Óháð þessu hefur Háskólinn ákveðið að gefa stúdentum kost á að nýta aðstöðu í Háskólanum í sumar til að vinna að námi sínu. Einnig er unnið að því að kanna möguleika á að bjóða upp á valin námskeið og að halda skrifleg próf í ágúst. Horfa þurfti til kostnaðar, námskeiðavals, gæðakrafna og skipulags og umsýslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×