Fyrsta leik dagsins í ensku bikarkeppninni er lokið. Cardiff sótti Chelsea heim og yfirgaf Stamford Bridge með tvær hendur tómar enda vann Chelsea stórsigur, 4-1.
Didier Drogba kom Chelsea yfir eftir aðeins tveggja mínútna leik. Leikmenn Cardiff gáfust ekki upp og hinn ótrúlegi bikarmaður Michael Chopra jafnaði leikinn fyrir Cardiff á 34. mínútu. Þannig stóðu leikar í hálfleik.
Síðari hálfleikur var eign Chelsea sem skoraði þrjú mörk í hálfleiknum.
Fyrst Michael Ballack, síðan Daniel Sturridge og loks Salomon Kalou.