Innlent

Framsóknarmenn missaga í Íraksmáli

Jónína Bjartmarz, fulltrúi Framsóknarflokksins í utanríkismálanefnd Alþingis, fullyrðir að stuðningur Íslands við innrásina í Írak hafi aldrei verið ræddur í utanríkismálanefnd. Formaður Framsóknarflokksins staðhæfði í fjórgang í sjónvarpsviðtali fyrir mánuði að málið hefði verið rætt í nefndinni. Sú staðreynd að 84 prósent íslensku þjóðarinnar eru andvíg því að Ísland sé á lista hinna staðföstu og viljugu þjóða sem styðja innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak var rædd í Íslandi í dag eftir fréttir í gær. Þar upplýsti Jónína Bjartmarz, sem situr í utanríkismálanefnd, að málið hefði aldrei verið rætt í nefndinni. Þetta er í hróplegu ósamræmi við orð Halldórs Ásgrímssonar í Kastljósi Ríkissjónvarpsins sléttum mánuði fyrr. Þar fullyrti hann í fjórgang að málið hefði verið rætt í utanríkismálanefnd, fyrst þegar hann var spurður hverjir hefðu tekið þá ákvörðun að styðja innrásina, við hvaða aðstæður og á hvaða forsendum. Þá svaraði forsætisráðherra: „Það liggur náttúrulega alveg ljóst fyrir að þetta mál var margrætt á Alþingi. Það var rætt í utanríkismálanefnd, það var rætt í þinginu en að lokum var það að sjálfsögðu utanríkisráðherra og forsætisráðherra sem gerðu tillögu í þessum efnum.“ Þá er spurt hvort ekki hefði verið rétt að standa að þessari ákvörðun með lögformlegum hætti. Þá svarar forsætisráðherra: „Ég meina, sko, þetta var margrætt á Alþingi, þetta var margrætt í utanríkismálanefnd.“ Þá er spurt hvort ekki þurfi að ræða þetta með formlegum hætti og Halldór svarar: „Jú það var rætt á Alþingi og það var hérna rætt í utanríkismálanefnd.“ Að endingu er spurt hvort það hafi verið hann og Davíð Oddson sem tóku ákvörðunina. Og Halldór svarar: „Við tökum að sjálfsögðu af skarið. Eftir að hafa rætt við ýmsa aðila um þetta mál, þar með rætt það í utanríkismálanefnd og rætt margoft, hefur málið verið rætt á Alþingi.“ Af svörum Jónínu í gær og Halldórs fyrir mánuði er ekki hægt að ráða nema eitt; þau geta ekki bæði verið að segja satt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×