Körfubolti

Landsliðskona leggur skóna á hilluna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnhildur Gunnarsdóttir í leik á móti Vals í Domino´s deild kvenna.
Gunnhildur Gunnarsdóttir í leik á móti Vals í Domino´s deild kvenna. Vísir/Bára

Gunnhildur Gunnarsdóttir, leikmaður Snæfells og íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta, hefur tekið þá ákvörðun að leggja skóna á hilluna.

Gunnhildur segir frá þessu á fésbókarsíðu sinni en hún á að baki magnaðan og sigursælan feril.

Gunnhildur var fastamaður í íslenska landsliðinu síðustu ár enda þar á ferðinni mjög öflugur bakvörður og mikil keppniskona.

Gunnhildur verður ekki þrítug fyrr en í haust og ætti því að eyða góð ár eftir enn þá. Gunnhildur ætlar hins vegar að tileinka tíma sínum fjölskyldunni og hvíla sig á boltanum.

Gunnhildur varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari með Snæfelli (2015 og 2016) þar af seinna tímabilið sem fyrirliði liðsins.

Hún varð einnig tvisvar sinnum bikarmeistari, 2014 með Haukum og 2016 með Snæfelli. Gunnhildur tók við því báðum bikurunum eftir að hún tók við fyrirliðastöðunni hjá Snæfelli af Hildi Sigurðardóttur.

Gunnhildur er úr Stykkishólmi en lék með Haukum á námsárum sínum í höfuðborginni.

Gunnhildur skoraði 1994 stig í 181 deildarleik með Snæfelli og 242 stig í 24 leikjum í úrslitakeppni með Snæfelli. Hún lék því alls 205 leiki fyrir Snæfell á Íslandsmótinu og skoraði í þeim 2236 stig. Gunnhildur lék einnig 82 deildarleiki með Haukum á Íslandsmóti og á því samtals 263 leiki og 2738 stig í efstu deild kvenna í körfubolta.

Gunnhildur lék alls 36 landsleiki fyrir Ísland á árunum 2012 til 2019 þar af fjóra sem fyrirliði. Hún vann fjögur silfurverðlaun með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×