Körfubolti

Baldur um grun um veðmálasvindl: Hafði enga trú á að þetta væri til staðar

Sindri Sverrisson skrifar
ÍR vann Tindastól í Breiðholtinu.
ÍR vann Tindastól í Breiðholtinu.

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, segist ekki hafa haft neina trú á því að grunur um að leikmenn liðsins ættu þátt í veðmálasvindli í vetur væri á rökum reistur.

Fregnir bárust af því í desember að óvenju háum upphæðum hefði verið veðjað á leik Tindastóls gegn ÍR í Domino‘s-deild karla í körfubolta. KKÍ tók málið til skoðunar til að reyna að komast að því hvort að hugsanlega hefðu leikmenn haft óeðlileg áhrif á úrslit leiksins, sem Tindastóll tapaði, og var niðurstaðan sú að engin vísbending væri um veðmálasvindl

Baldur var í viðtali við Sportið í dag á Stöð 2 Sport þar sem hann var spurður hvort umræðan hefði haft áhrif á leikmannahóp Tindastóls.

„Þetta beindist náttúrulega að ákveðnum leikmönnum. Ég er búinn að vinna með þeim á hverjum degi, þekki þá mjög vel, og í sjálfu sér fannst mér þetta… ég hafði enga trú á því að þetta væri til staðar og þeirra viðbrögð við þessu… ef að maður þekkir menn einhvern veginn þá sá maður að þetta átti ekki að vera neitt rétt í þessu,“ sagði Baldur í dag.

„Við töldum okkur vita sannleikann og að hann myndi koma í ljós. Við myndum bara einbeita okkur að því sem að við gætum stjórnað. Við myndum bara mæta á æfingu og leggja okkur fram, og einbeita okkur að því að bæta okkur í körfu og bæta okkur sem persónur. Að halda áfram. Þetta er baráttan sem maður er alltaf í í dag. Það er komin meiri athygli á sportið og maður er einhvern veginn alltaf í sviðsljósinu. Þó að það sé voða gaman að þetta sé orðið stærra þá þarf maður samt að læra að það sem mestu máli skiptir er að mæta á æfingu og leggja sig fram,“ sagði Baldur.

Klippa: Sportið í dag: Baldur tjáir sig um meint veðmálasvindl í vetur

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.