Skoðun

Fókus á börnin

Ásmundur Einar Daðason skrifar

Börn eru einn viðkvæmasti hópur samfélagsins á óvissutímum, hvort sem er vegna náttúruhamfara, efnahagslegra niðursveiflna eða heilsufarsógna, á borð við COVID-19 faraldurinn, sem við glímum við núna. Þó veiran herji samkvæmt heimildum ekki á börn með sama hætti og ýmsa aðra hópa skapar sú óvissa og álag sem honum fylgir aukna hættu er varðar öryggi og velferð barna.

Á einungis nokkrum vikum hefur faraldurinn raskað lífi barna og fjölskyldna um allan heim og nauðsynlegar sóttvarnaraðgerðir hafa, þrátt fyrir mikilvægi sitt, raskað rútínu og stuðningskerfi margra barna. Álag og streita sem getur skapast í tengslum við samkomubann, efnahagslegar áskoranir og takmarkaðra aðgengi að stuðningskerfum, ásamt skertu samneyti við vini og fjölskyldumeðlimi, getur skapað aukna hættu fyrir viðkvæma hópa barna.

Það hefur til að mynda mikil áhrif á fötluð og langveik börn að komast lítið eða ekki í skóla eða frístundastarf. Röskun á rútínu getur reynst börnum sérstaklega erfið og rannsóknir hafa sýnt að ofbeldi eykst þar sem álag er mikið á fjölskyldur.

Reynsla af faröldrum síðustu áratuga, og nýleg reynsla frá Kína, hefur sýnt að börn eru í aukinni hættu á að sæta vanrækslu, ofbeldi, misnotkun og félagslegri útilokun í kjölfar samkomubanns eða lokunar skóla. Í Kína varð töluverð aukning á heimilisofbeldi í kjölfar faraldursins og þar í landi hafa áhrif hans náð til barna og fjölskyldna langt umfram þá sem sýkst hafa.

Stuðningur við barnavernd er því hluti af öllum viðbragðsáætlunum félagsmálaráðuneytisins vegna COVID-19 og byggja þær á samráði við fagaðila hér á landi, reynslu frá öðrum ríkjum og leiðbeinandi viðmiðum frá alþjóðlegum stofnunum.

Í ljósi þessa hef ég sett af stað vinnu í ráðuneyti mínu sem miðar að því að efla og styðja við börn og foreldra sem eru í viðkvæmri stöðu. Við ætlum að setja fókusinn á börnin og munum kynna aðgerðir stjórnvalda hvað það varða á næstu dögum. Við munum beina sjónum sérstaklega að því að styðja við foreldra í viðkvæmri stöðu, efla samfélagið allt til að láta vita ef áhyggjur vakna af barni, ásamt því að stuðla að því að foreldrar og börn hafi sem greiðastan aðgang að stuðningi og þjónustu þegar á reynir.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×