Handbolti

Einar tekur við norsku liði: „Markmiðið að komast í úrvalsdeildina“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einar þjálfar í Noregi næstu þrjú árin.
Einar þjálfar í Noregi næstu þrjú árin. vísir/daníel

Handboltaþjálfarinn Einar Jónsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við norska C-deildarliðið Bergsøy.

„Þetta er mjög spennandi,“ sagði Einar í samtali við Henry Birgi Gunnarsson í Sportinu í dag.

„Þeir hafa mikinn metnað að komast hærra og það býr mikið í liðinu og félaginu. Það stendur vel fjárhagslega. Markmiðið er að komast upp í 1. deildina og svo úrvalsdeildina ef allt gengur að óskum. Við lítum á þetta sem þriggja ára verkefni.“

Í vetur hefur Einar þjálfað H71 í Færeyjum með afar góðum árangri. Þar áður var hann þjálfari karlaliðs Gróttu.

Einar þekkir ágætlega til í Noregi en hann þjálfaði kvennalið Molde á árunum 2013-15 og kom liðinu upp um tvær deildir. Einar hefur einnig þjálfað karla- og kvennalið Fram og karlalið Stjörnunnar. Hann gerði karlalið Fram að Íslandsmeisturum 2013 og kvennaliðið að bikarmeisturum 2010 og 2011.

Einar segir að það komi til greina að fá íslenska eða færeyska leikmenn til Bergsøy.

„Það gæti alveg gerst. Við erum að velta leikmannamálunum fyrir okkur. Leikmannahópurinn er góður fyrir en við erum bæði að skoða Íslendinga og Færeyinga,“ sagði Einar sem segist hlakka til starfa aftur í Noregi.

„Mér leið mjög vel í Noregi þegar ég var þar síðast. Þetta verkefni er ekkert ósvipað. Ég tók við kvennaliði Molde á sama stað og þetta lið er á. Ég hef mikla trú á þessu. Noregur er á gríðarlega mikilli uppleið í handboltanum eins og allir vita. Svo eru vonandi ákveðnir möguleikar í framhaldinu. Þetta er miklu stærri en hér heima.“

Viðtalið við Einar má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Sportið í dag: Einar fer til Noregs

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.