Handbolti

Bjarni hættir með ÍR og Kristinn tekur við

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarni Fritzson lætur af störfum hjá ÍR í sumar.
Bjarni Fritzson lætur af störfum hjá ÍR í sumar. vísir/bára

Bjarni Fritzson hættir sem þjálfari karlaliðs ÍR í handbolta eftir tímabilið. Við starfi hans tekur aðstoðarþjálfarinn Kristinn Björgúlfsson sem þjálfar jafnframt kvennalið ÍR. Þetta kom fram í viðtali við Sigurð Rúnarsson, formann handknattleiksdeildar ÍR, í Sportinu í dag.

ÍR-ingar eiga í miklum fjárhagsvandræðum og þurfa að draga saman seglin. Ljóst er að þeir missa þrjá leikmenn, Bergvin Þór Gíslason, Svein Andra Sveinsson og Þránd Gíslason Roth, til Aftureldingar í sumar.

Bjarni skrifaði undir tveggja ára samning við ÍR í janúar síðastliðnum en nú er ljóst að hann verður ekki áfram með liðið. Bjarni mun þó hjálpa áfram við uppbyggingu hjá ÍR og koma að þjálfun yngri flokka félagsins.

Bjarni hefur stýrt ÍR frá 2014. Áður var hann spilandi þjálfari Akureyrar. Bjarni lék lengi með ÍR og varð bikarmeistari með liðinu 2005 og lék með því til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn 2003.

ÍR er í 6. sæti Olís-deildar karla með 24 stig þegar tveimur umferðum er ólokið. Óljóst er hvenær, eða hvort, þær fara fram.

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.

Verðandi þjálfari karlaliðs ÍR, Kristinn Björgúlfsson, í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson.mynd/stöð 2 sport

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×