Skoðun

Tími fyrir samvinnu

Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar

Við upplifum um þessar mundir tíma sem fá eflaust marga kafla í veraldarsögunni, tíma sem munu hafa áhrif á daglegt líf okkar um nokkra hríð. Við megum ekki faðmast og kyssast, ekki halda fjölmenn matarboð fjölskyldu og vina, verðum að halda okkur í tveggja metra fjarlægð frá öðrum. Þetta reynir á okkur öll en er nauðsynlegt til að brjóta keðju veirunnar og stöðva útbreiðslu hennar. Við erum öll almannavarnir.

Válynd veður

Kórónuveirufaraldurinn bætist við erfiðan vetur hér á Íslandi þar sem veðrið hefur minnt rækilega á sig með stórhríðum og snjóflóðum. Ríkisstjórnin hefur þegar brugðist við þeim veikleikum sem opinberuðust í óveðrinu. Við höfðum einnig lagt grunninn að miklu átaki í fjárfestingum hins opinbera til að mæta fyrirsjáanlegri efnahagslægð. Þær áætlanir eru mikilvægar nú þegar við horfum fram á hrun vegna útbreiðslu veirunnar og þeirra aðgerða sem þjóðir heims hafa ráðist í til að verja heilsu fólks.

Kröftug viðspyrna

Ríkisstjórnin hefur nú kynnt fyrstu aðgerðir sínar til að verja heimili og fyrirtæki vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirunnar en eflaust þarf meira að koma til svo við náum kröftugri viðspyrnu. Hluti af aðgerðunum eru 20 milljarða fjárfestingar ríkisins og opinberra fyrirtækja en þær munu á þessu ári bætast við áður boðaðar framkvæmdir. Fjárfestingaáætlunin er fjölbreytt og tekur til fjölmargra sviða. Stór hluti hennar er stórátak í samgöngum í viðbót við þau 27 milljarða verkefni sem þegar hafði verið ákveðið að bjóða út.

Lífsgæði og samgöngur

Samgöngur eru mikilvægur þáttur í lífsgæðum okkar, ekki síst þeirra sem búa í hinum dreifðu byggðum. Mikilvægasta markmiðið með samgöngubótum er að draga úr slysum á fólki. Önnur markmið sem höfð eru að leiðarljósi eru að draga úr útblæstri og tengja samfélög um allt land og styrkja byggðir.

Öll él birtir um síðir

Ég efast ekki eina mínútu um að við komumst í gegnum þetta ef við stöndum saman. Við mætum þessum vanda af yfirvegun og æðruleysi eins og stórhríðunum sem við þekkjum vel. Öll él birtir um síðir. Það kemur vor og það kemur sól og daginn lengir. Við höfum áður tekist á við erfiðleika og staðið sterkari eftir. Við getum gert það aftur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×