Handbolti

Ragnar heim á Selfoss

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ragnar Jóhannsson klæðist vínrauða búningnum eftir níu ára hlé þegar keppni í Olís-deild karla hefst á ný.
Ragnar Jóhannsson klæðist vínrauða búningnum eftir níu ára hlé þegar keppni í Olís-deild karla hefst á ný. selfoss

Ragnar Jóhannsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við Selfoss. Hann kemur til Íslandsmeistaranna frá þýska úrvalsdeildarliðinu Bergischer.

Ragnar, sem er þrítugur, er uppalinn Selfyssingur og hóf ferilinn þar. Eftir að hafa orðið markakóngur efstu deildar tímabilið 2010-11 gekk Ragnar í raðir FH.

Hann lék með FH þar til í janúar 2015 er hann samdi við Hüttenberg í Þýskalandi. Þar lék Ragnar í fjögur ár áður en hann fór til Bergischer 2019.

Ragnar, sem er örvhent skytta, styrkir lið Selfoss gríðarlega mikið. Selfyssingar voru í 4. sæti Olís-deildar karla með fimm stig þegar keppni var hætt í október vegna kórónuveirufaraldursins.

Samningur Ragnars við Bergischer átti að renna út í vor en samkomulag náðist um að rifta honum og hann getur því byrjað að spila með Selfossi þegar keppni í Olís-deildinni hefst á ný. Í fréttatilkynningu frá Selfossi kemur fram að dyggir stuðningsmenn hafi rétt fram hjálparhönd til að félagaskipti Ragnars yrðu að veruleika.

Ragnar var í fyrsta og eina sinn valinn í íslenska landsliðið vorið 2018 og lék þá með því á æfingamóti í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×