Skoðun

Við förum að lögum (auðvitað)

Magnús Orri Marínarson Schram og Þorsteinn Víglundsson skrifa

Fyrir tíu árum voru samþykkt lög á Alþingi sem skylduðu fyrirtæki með yfir 50 starfsmenn til að jafna hlut kynjanna í stjórnum þeirra. Markmiðin voru skýr. Að tryggja jöfn tækifæri óháð kyni þannig að sannarlega sé verið að velja hæfasta fólkið til stjórnunarstarfa. Með þessu væri verið að brjóta glerþök, tryggja fjölbreyttar fyrirmyndir og vinna gegn einsleitni í atvinnulífinu. Á sínum tíma mætti frumvarpið þónokkurri andstöðu en tímarnir breytast og í dag eru það eru fáir sem eru málinu mótfallnir. Nú skynja flestir að stundum þarf að beita lögum til að taka á aldagamalli forréttindastöðu karla.

Næsta skref

Fyrir Alþingi liggur núna frumvarp sem leggur dagsektir á þau fyrirtæki sem brjóta lögin og gerir þau sambærileg annarri lagasetningu í landinu. Sektum má beita ef lög eru brotin. Ekki er vanþörf á en nýjustu tölur Hagstofunnar sýna að hluti fyrirtækja eru að brjóta lögin. Árið 2018 voru konur 28,8% stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50-99 starfsmenn og 36,4% í stjórnum fyrirtækja með 100-249 starfsmenn. Verði frumvarpið að lögum má beita sektum ef 40% markinu er ekki náð. Löngu tímabær breyting og nauðsynleg til að markmið laganna náist að fullu.

Auðvitað

Ísland er í fararbroddi jafnréttismála í heiminum. Hvergi virðist almenningur jafn meðvitaður um að jöfn staða kynjanna er þjóðarhagur og að lagasetning getur verið frábært tæki til að knýja fram nauðsynlegar breytingar. Dagsektirnar gegna akkúrat því hlutverki. Þær hnippa í skussana og fá þá til að klára málið, því auðvitað eigum við öll að fara að lögum. Vonandi tekst Alþingi að sýna framsýni og þor á næstu dögum, ljúka verkinu sem hófst fyrir tíu árum og samþykkja frumvarpið.

Magnús Orri Marínarson Schram er framkvæmdastjóri og fyrrum þingmaður

Þorsteinn Víglundsson er framkvæmdastjóri og fyrrum þingmaður



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×