Skoðun

Brúum réttlætisgjána og upprætum kynbundið ofbeldi

Eva Huld Ívarsdóttir skrifar

Þessa dagana taka mannréttindasamtök um allan heim þátt í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Ofbeldi gegn konum er rótgróið í samfélagi okkar og þrífst á tímum heimsfaraldursins COVID-19. Af tilkynningum að dæma virðist mynstur ofbeldisins þó hafa breyst, heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum hefur aukist en kynferðisbrotum virðist hafa fækkað. Í maí á þessu ári höfðu borist um 11% fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi til lögreglu en á sama tímabili árin áður og í ágúst höfðu 20% fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi gagnvart börnum borist til Barnaverndar Reykjavíkur. Tilkynningum um kynferðisbrot hefur þó fækkað. Í ágúst höfðu 80 kynferðisbrot hafa verið tilkynnt til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, samanborið við í kringum 170 á sama tíma síðustu þrjú ár.

Kynferðis- og heimilisofbeldi þrífst að baki luktum dyrum og var lengi falið með rúmri túlkun á vernd friðhelgi einkalífs og heimilis, en hefur verið dregið fram í dagsbirtuna og þolendur þess njóta nú verndar hins opinbera. Sem samfélag ber okkur að leita allra leiða til að stöðva og uppræta ofbeldið. Í þeim aðgerðum er íslenskt réttarvörslukerfi í lykilstöðu.

Þrátt fyrir að þekkingu okkar á umfangi og alvarleika brotanna hafi fleygt fram er enn langt í land að tilkynningar um allt kynbundið ofbeldi sem á sér stað berist til lögreglu og þaðan af síður að það sé til umfjöllunar dómstóla. Þegar litið er sérstaklega til meðferðar á nauðgunarmálum er ljóst að fá kærð nauðgunarmál koma fyrir dómstóla. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á einkennum og meðferð nauðgunarmála innan réttarkerfisins var sakfellt í 23 málum af þeim 189 málum sem kærð voru til lögreglu á árunum 2008 og 2009 eða í 12% tilvika.

Þessu vandamáli hefur verið lýst sem „réttlætisgjá“ en hugtakið vísar til þess breiða bils sem er til staðar á annars vegar vitneskju okkar um gríðarlegan fjölda kynferðisbrota sem framin eru og hins vegar þeirra fáu mála sem rata til dómstóla.Tilurð þessarar gjáar er meðal annars djúpstæðar og oft ómeðvitaðar hugmyndir okkar um kynin og háttsemi þeirra, svonefndar nauðgunarmýtur. Nauðgunarmýtur hafa þau áhrif að brotaþolar tilkynna síður nauðgunarbrot og þær hafa einnig áhrif á meðferð málanna innan dómskerfisins. Þessar mýtur birtast meðal annars í lífsseigum hugmyndum líkt og þeim að konur sem er nauðgað tilkynni verknaðinn strax til lögreglu og að þær ljúgi til um brotin í hefndarskyni á meðan staðreyndin er sú að konur kæra nauðgunarbrot til þess að stöðva ofbeldið.

Auk þess er eitt lykilatriði þessa hugmyndakerfis það að karlar sem nauðga séu á einhvern hátt öðruvísi en aðrir karlmenn sem nauðga ekki. Árið 2015 kom út rannsókn um viðhorf fagaðila til meðferðar nauðgunarmála í réttarvörslukerfinu. Rannsóknin var unnin að beiðni innanríkisráðuneytisins og þar kom meðal annars fram að gerendur nauðgunarafbrota eru, ólíkt því sem birtist í nauðgunarmýtunni, venjulegir karlmenn. Þar kom einnig fram að dómarar á Íslandi hafa ekki fengið sérstaka þjálfun í að tryggja að sönnunarmat þeirra sé óháð félagslegri stöðu, aldri, kyni og framkomu brotaþola og sakbornings. Viðmælendur í rannsókninni voru almennt sammála um að persóna dómarans og mannleg reynsla skipti máli þegar kemur að kynferðisbrotamálum. Jafnframt voru þeir sammála um mikilvægi þess að reynsluheimur beggja kynja endurspeglaðist í fjölskipuðum dómum í kynferðisbrotamálum.

Það er því sláandi að lengi vel var reynsluheimur kvenna ekki endurspeglaður í Hæstarétti Íslands. Frá því að Hæstiréttur Íslands tók til starfa 1920 og til ársins 2019 höfðu einungis fjórar konur setið í dómnum en 47 karlar. Það voru því gleðifréttir þegar dómsmálaráðherra skipaði Ásu Ólafsdóttur og Björgu Thorarensen sem dómara við Hæstarétt í nóvember á þessu ári, en í réttinum sat fyrir Ingveldur Einarsdóttir sem skipuð var í upphafi þessa árs. Nú sitja því í Hæstarétti þrjár konur og fjórir karlar og hefur hlutfall kvenna aldrei verið hærra.

Við þurfum fleiri konur á öðrum vígstöðum réttarkerfisins. Til að mynda er enn mikill kynjahalli innan lögreglunnar. Íársskýrslu Ríkislögreglustjóra fyrir árið 2019 kemur fram að aðeins 8 konur gegndu á árinu starfi lögreglumanns en 100 karlar og hlutfall starfandi lögreglukvenna hjá embætti Ríkislögreglustjóra var því 7,4%. Töluvert betur hefur gengið hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að fjölga konum því í ársskýrslu þeirra 2019 kom fram að á árinu fór hlutfall starfandi lögreglukvenna hjá embættinu í 30,5%, 97 konur og 221 karl, en árið 2013 var hlutfall starfandi lögreglukvenna þareinungis 16%. Árangur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur sýnt að hægt sé að vinna hratt og örugglega að því að fjölga konum innan lögreglunnar ef vilji er fyrir hendi.

Kvenréttindafélag Íslands hefur í rúmlega öld barist fyrir rétti kvenna að störfum og embættum til fulls. Auk þess hefur félagið beitt sér fyrir fjölgun kvenna í stjórnmálum, opinberum embættum og í dómskerfinu. Kynjajafnrétti mun aðeins nást þegar konur taka jafnan þátt í ákvarðanatöku á öllum sviðum samfélagsins. Það er ekki nóg að setja framsækin lög til að tryggja jafnrétti og uppræta kynbundið ofbeldi, við verðum einnig að tryggja að fólkið sem hefur þann starfa að framfylgja lögunum og dæma eftir þeim endurspegli fjölbreytileika samfélagsins og hafi hlotið nauðsynlega menntun í að taka á kynbundnum ofbeldisbrotum. Það er samfélagsleg nauðsyn að fjölga konum hratt innan lögreglunnar á landsvísu og tryggja að kynjahlutföll í Hæstarétti falli aldrei aftur í fyrra horf.

Höfundur er lögfræðingur og stjórnarkona Kvenréttindafélags Íslands.

Greinin er hluti af sextán daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Átakið er alþjóðlegt og var fyrst haldið árið 1991. Markmið þess er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis í heiminum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×