Innlent

Segja Landhelgisgæsluna hafa sýnt flugvirkjum „mikla vanvirðingu“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ekki sést til lands í kjaradeilu flugvirkja Landhelgisgæslunnar við íslenska ríkið.
Ekki sést til lands í kjaradeilu flugvirkja Landhelgisgæslunnar við íslenska ríkið. Vísir/Vilhelm

Jarðvísindamenn, Vestmannaeyingar, sjómenn, slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn, sjómenn, vélstjórar og málmtækimenn eru á meðal þeirra sem lýst hafa yfir miklum áhyggjum af yfirstandandi vinnustöðvun flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands og þeirra áhrifa sem það hefur á öryggi landsmanna, hvort sem er á sjó eða landi. Þrjú félög sjómanna- og vélstjóra segja Landhelgisgæsluna hafa sýnt flugvirkjum mikla vanvirðingu.

Fundi samninganefnda Flugvirkjafélags Íslands og ríkisins vegna kjaradeilu flugvirkja sem starfa hjá Landhelgisgæslunni lauk án niðurstöðu á fimmta tímanum í gær. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar. Þetta hefur meðal annars þau áhrif að engin björgunarþyrla verður til taks hjá Landhelgisgæslunni í tvo sólarhringa frá og með miðnætti á miðvikudag.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra viðraði áhyggjur sínar af stöðu mála í kjaradeilunni í morgun, en hún ræddi vinnustöðvunina á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Lagasetning á verkfallið kom ekki til tals í morgun að sögn ráðherra.

Fjölmargir talsmenn hinna ýmsu hópa sem reiða sig á þjónustu Landhelgisgæslunnar hafa viðrar áhyggjur sínar af stöðu mála í kjaradeilunni. 

Jarðvísindamenn benda á að náttúruhamfarir dynji yfir með skömmum fyrirvara

Þannig lýsir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur því í færslu á Facebook-síðu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands hversu mikilvæg þjónusta þyrlusveita Landhelgisgæslunnar sé vegna eftirlits og rannsókna á eldgosum og annarri náttúruvá hér á landi. Hann segir stöðuna grafalvarlega og að meta þurfi að verðleikum þau mikilvægu störf sem flugvirkjar vinna.

„En það er fullkomlega óásættanleg staða að skipulag mála sé með þeim hætti að grundvallarþættir í öryggiskerfi landsins stöðvist vegna verkfalls,“ skrifar Magnús Tumi.

Nefnir hann dæmi um náttúruhamfarir undanfarinna ára þar sem þyrlur Landhelgisgæslunnar léku lykilhlutverk.

„Náttúruhamfarir dynja oft yfir með stuttum fyrirvara. Snjóflóðin og óveðrin í vetur áttu sér ekki margra daga fyrirvara þar sem fyrirséð var í hvað stefndi. Fyrirvarinn fyrir eldgos er yfirleitt ekki langur, oft fáar klukkustundir. Í gosunum í Gjálp 1996, Grímsvötnum 1998, 2004 og 2011, Heklu 2000, Eyjafjallajökli 2010 og Holuhrauni 2014-15 gegndu þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar og flugvél Ísavía lykilhlutverki við að meta ástandið svo hægt væri að taka ákvarðanir um rýmingar og viðbrögð. Ef drægi til tíðinda á næstu dögum gæti sú staða komið upp að viðbragðið væri mjög laskað vegna þess að loftförin eru ekki flugfær.“

Finna þurfi tafarlausa lausn á kjaradeilunni.

Vestmannaeyingar sammála

Vestmannaeyingar virðast deila áhyggjum Magnúsar Tuma en í yfirlýsingu frá almannavarnanefnd Vestmannaeyja kemur fram að nefndin lýsi yfir alvarleg áhyggjum af þeirri stöðu sem kominn er upp vegna kjaradeilunnar.

„Þetta er með öllu óviðunandi og getur ógnað öryggi íbúa í Vestmannaeyjum og sjófarenda ekki síst í því ljósi að veðurspá fyrir næstu daga er slæm og við búið að samgöngur milli lands og Eyja geti raskast verulega af þeim sökum.

Skorar nefndin á stjórnvöld að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að þyrluþjónusta Landhelgisgæslunnar og neyðarþjónusta á sjó og landi verði með viðunandi hætti.“

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna tekur einnig undir þessar áhyggjur. Í yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla nú síðdegis er skorað á samninganefnd ríkisins að ná samningum við flugvirka.

„Þrátt fyrir að Ísland sé lítil eyja eru samgöngur hér sérstaklega yfir vetrarmánuðina oft erfiðar og tímafrekar. Ef bráð veikindi eða slys bera að höndum er mikilvægt að keðja neyðarþjónustu heilbrigðiskerfisins utan spítala sé sterk og þar spila þyrlur Landhelgisgæslunnar afar mikilvægt hlutverk fyrir stóran hluta landsins og er ómissandi fyrir sjófarendur.

Flugvirkjar að störfum.Vísir/Vilhelm

Slys eða bráð veikindi gera ekki boð á undan sér og fyrirsjáanleg stöðvun þjónustu björgunarþyrlna geta valdið einstaklingum sem þurfa og eiga rétt á aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu ómældum skaða,“ segir í yfirlýsingu sem var einnig send á formann samninganefnd ríkisins, dómsmálaráðherra og alþingismenn í von um að deilan fái farsælan endi, að því er fram kemur í tölvupósti Magnúsar Smára Smárasonar, formanns sambandsins, til fjölmiðla.

Þrjú félög lýsa yfir fullum stuðningi við flugvirkja

Þá sendu Sjómannafélag Íslands, Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur einnig frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem sambærilegar áhyggur og finna má hér að ofan voru viðraðar. Telja félögin að öryggi sjófarenda og landsmanna sé stefnt í hættu við þær aðstæður sem nú eru upp komnar.

Þá lýsa félögin þrjú yfir fullum stuðningi við flugvirkja og senda forvarsmönnum Landhelgisgæslunnar pillu í leiðinni.

„Svo það komi skýrt fram þá hafa þær starfstéttir sem eru á skipum Gæslunnar engan verkfallsrétt og er framganga Landhelgisgæslunnar gagnvart þeim stéttum til háborinna skammar, og hefur stofnunin sýnt þeim mikla vanvirðingu með mismunun á kjörum þar sem óskýrir hagsmunir séu hafðir í forgangi í gerð kjarasamninga.“

Sem fyrr segir sést ekki til lands í kjaradeilunni og ekki hefur verið boðað til viðræðna eftir að fundi var slitið í gær


Tengdar fréttir

Lög á verkfall flugvirkja ekki til umræðu

Dómsmálaráðherra ræddi vinnustöðvun flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Engin ákvörðun hefur verið tekin um framhaldið en ráðherra hyggur á fund með Landhelgisgæslunni í dag.

„Deilan er á alvarlegum og erfiðum stað“

Samninganefndir flugvirkja Landhelgisgæslunnar og ríkisins héldu til samningafundar klukkan 11.30 í dag. Ríkissáttasemjari boðaði til fundarins vegna alvarlegrar stöðu sem blasir við hjá gæslunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.