Golf

Rory McIlroy spilar með sérhannað gullúr á Masters mótinu í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rory McIlroy með nýja sérhannaða gullúrið á Augusta golfvellinum í aðdraganda Mastersmótsins í golfi.
Rory McIlroy með nýja sérhannaða gullúrið á Augusta golfvellinum í aðdraganda Mastersmótsins í golfi. Getty/Jamie Squire

Rory McIlroy hefur að miklu að keppa á Mastersmótinu í golfi sem hefst á morgun því með sigri á mótinu kemst Norður-Írinn í úrvalshóp.

Rory McIlroy hefur unnið öll risamótin á ferlinum nema Mastersmótið en aðeins fimm kylfingum hefur tekist að loka hringnum og vinna öll fjögur risamótin á ferlinum.

Rory McIlroy mun reyna að sækja sér heppni í nýtt sérhannað og rándýrt gullúr frá Omega. McIlroy mun bera þetta úr aðeins á þessu Mastersmóti en það kostar um 30 þúsund pund eða meira en 5,4 milljónir króna.

Úrið er sérhannað fyrir Rory McIlroy og er í raun virðingarvottur um hans feril. Þar má meðal annars sjá vallarmetið hans frá því að hann spilaði Royal Portrush völlinn á aðeins 61 höggi þegar hann var bara sextán ára gamall.

Það hefur verið þessi pressa á Rory McIlroy á undanförnum fimm Mastersmótum en hann hefur ekki unnið risamót síðan á PGA meistaramótinu árið 2014.

Rory McIlroy er 31 árs gamall en sigrar hans á risamótum voru 2012 og 2014 á PGA-meistaramótinu, 2011 á opna bandaríska meistaramótinu og 2014 á opna breska meistaramótinu.

Þetta verður því sjötta Mastersmótið þar sem hann hefur möguleika á því að klára risamóta alslemmuna. Bestum árangri náði Rory árið 2015 þegar hann endaði fjórði en annars hefur hann verið inn á topp tíu fyrir utan í fyrra þegar McIlroy náði aðeins 21. sæti.

Það fylgir reyndar sögunni að spilamennska Rory McIlroy að undanförnu hefur ekki verið upp á marga fiska. Hann hefur ekki náð að enda meðal fimm efstu á PGA-móti síðan í mars.

Það verður því fróðlegt að sjá hvort þetta glæsilega gullúr færi honum einhverja heppni þegar Mastersmótið byrjar á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×