Handbolti

Aron, Hákon og Elvar gældu allir við einkunnina tíu í Höllinni í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson í leiknum í Laugardalshöllinni í gærkvöldi.
Aron Pálmarsson í leiknum í Laugardalshöllinni í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm

Aron Pálmarsson, Hákon Daði Styrmisson og Elvar Örn Jónsson voru allir frábærir með íslenska handboltalandsliðinu í stórsigrinum á Litháen í undankeppni EM í Laugardalshöllinni í gær.

HB Statz var á leiknum og tók alla tölfræðina í leiknum sem Íslands vann með sextán marka mun, 36-20. Þetta var fyrsti leikur íslensku strákanna í riðlinum.

Þeir Aron Pálmarsson, Elvar Örn Jónsson og Hákon Daði Styrmisson fengu hæstu einkunnina af leikmönnum íslenska liðsins. Þeir gældu líka allir við einkunnina tíu á sitthvorum hluta vallarins.

Aron Pálmarsson fékk þannig 9,9 í einkunn hjá HB Statz fyrir sóknarleikinn. Aron nýtti öll þrjú skotin sín í leiknum og gaf að auki átta stoðsendingar.

Aron skapaði alls tólf færi fyrir liðfélaga sína og ein sending hans gaf víti. Aron tapaði líka aðeins tveimur boltum þrátt fyrir að búa svo mikið til fyrir liðið.

Hákon Daði Styrmisson fékk einnig 9,9 í einkunn fyrir sóknarleik sinn í gærkvöldi. Hákon var markahæstur í íslenska liðinu en hann skoraði átta mörk og klikkaði ekki á einu einasta skoti. Þrjú af mörkum Hákonar komu úr hraðaupphlaupum.

Elvar Örn Jónsson fékk aftur á móti 9,8 í einkunn hjá HB Statz fyrir varnarleikinn. Elvar átti átta lögleg stopp í leiknum og náði þremur fráköstum.

Elvar lék einnig vel í sókninni því hann skoraði fimm mörk úr aðeins sex skotum og gaf einnig tvær stoðsendingar.

Hæstu einkunnir íslensku strákanna í sóknarleiknum:

(Tölur frá HB Statz)

  • 1. Aron Pálmarsson 9,9
  • 1. Hákon Daði Styrmisson 9,9
  • 3. Arnór Þór Gunnarsson 8,0
  • 4. Elvar Örn Jónsson 7,7
  • 5. Janus Daði Smárason 7,5
  • 6. Viggó Kristjánsson 7,0

Hæstu einkunnir íslensku strákanna í varnarleiknum:

(Tölur frá HB Statz)

  • 1. Elvar Örn Jónsson 9,8
  • 2. Aron Pálmarsson 8,7
  • 3. Viktor Gísli Hallgrímsson 8,5 (Markvörður)
  • 4. Ýmir Örn Gíslason 8,3
  • 5. Arnar Freyr Arnarsson 7,1
  • 6. Ómar Ingi Magnússon 6,8



Fleiri fréttir

Sjá meira


×